Lífið

P. Diddy kærður fyrir þátt­töku í hóp­nauðgun

Bjarki Sigurðsson skrifar
P. Diddy er einn áhrifamesti rappari sögunnar.
P. Diddy er einn áhrifamesti rappari sögunnar. Getty/Shareif Ziyadat

Bandaríski rapparinn og frumkvöðullinn Sean Combs, betur þekktur sem P. Diddy, hefur verið kærður fyrir þátttöku í hópnauðgun. Nauðgunin átti sér stað árið 2003 og var fórnarlambið sautján ára gömul stelpa.

Kæran var lögð fram í gær en Diddy er sagður hafa greitt fyrir flugferð stelpunnar frá Michigan til New York þar sem upptökustúdíó hans var. Þar á Diddy að hafa nauðgað henni ásamt tveimur öðrum mönnum, þar á meðal Harve Pierre sem er forstjóri Bad Boy Entertainment plötufyrirtækisins. 

Harve Pierre (t.v.) og P. Diddy árið 2010.Getty/Johnny Nunez

Þá segir að mennirnir hafi gefið stelpunni vímuefni og áfengi og átti nauðgunin sér stað á meðan hún var með og án meðvitundar vegna efnanna. 

Konan segist hafa upplifað mikla skömm eftir atvikið og hefur það haft áhrif á líf hennar og sambönd þessi tuttugu ár síðan atvikið á að hafa átt sér stað. 

Þetta er ekki fyrsta ásökunin á hendur Diddy sem komið hefur fram nýlega en í nóvember sakaði fyrrverandi kærasta hans, Casandra Ventura, hann um að hafa beitt sig ofbeldi í áratug. 

Í yfirlýsingu frá Diddy sem kom í gær segir hann að nú sé komið nóg. Hann geti ekki þagað lengur. 

„Síðustu vikur hef ég setið þegjandi og horft á fólk reyna að skaða persónu mína, orðspor mitt og arfleifð. Ógeðslegar ásakanir hafa verið settar fram gegn mér af einstaklingum sem vilja græða pening,“ segir í yfirlýsingunni þar sem hann neitar alfarið sök. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×