Benoný ferðaðist til Gautaborgar en í samtali við Gautaborgar-Póstinn segir Ola Larsson, íþróttastjóri hjá IFK Gautaborg, að ekkert verði af samningnum.
Samkvæmt upplýsingum Vísis náðist einfaldlega ekki samkomulag um kaup og kjör.
„Það er erfitt fyrir mig að tjá mig um alla leikmenn sem skrifað er um. En nú er ljóst að hann var hérna. En í þessu tilfelli þá endaði það ekki með neinum samningi,“ sagði Ola Larsson við GP.
Benoný Breki kom til KR frá Bologna á Ítalíu í vor og skoraði níu mörk í 25 leikjum í Bestu deildinni í sumar.