Þannig telja vísindamenn Veðurstofunnar að á meðan land haldi áfram að rísa við Svartsengi séu líkur á öðru kvikuhlaupi sem gæti endað með eldgosi.
„Landris undir Svartsengi heldur áfram og eins og kemur fram í hættumatinu þá getur orðið kvikuhlaup og ný atburðarás með mjög skömmum fyrirvara. Veðurstofa horfir á að það geti verið allt niður í tveggja tíma fyrirvari á slíku en við fengjum fyrirvara á frekari atburðum þarna,“ segir Víðir Reynisson sviðsstjóri almannavarna.
Hann segir hættustig almannavarna áfram í gildi og reglur um viðveru fólks í Grindavík séu óbreyttar. Unnið sé að ýmsum viðgerðum og þeim þurfi að ljúka áður en hægt sé að segja að svæðið sé öruggt.
Þá sé lítið hægt að segja til um það nú hvenær íbúar geti aftur flutt heim.
„Því miður þá er svona erfitt að segja til um það. Við erum alltaf að endurskoða þetta og vona svona að þessi tímalengd sem við sjáum sé styttri en við höfum talað um.“

Skemmdir séu á öðrum grunnskólanum í bænum og einnig á leikskólum og því langt í að starfsemi geti hafist þar á ný. Hann eigi ekki von á að slík þjónusta verði aftur í boði fyrr en í vor.
„Þó að fólk gæti kannski hugsanlega verið heima hjá sér þá verður þjónustan í bænum mjög takmörkuð í mjög langan tíma.“
Hótel Bláa lónsins ekki opnað meðan ekki má vera í Grindavík á nóttunni
Víðir segist finna fyrir því að sífellt fleiri Grindvíkingar vilji fá að fara heim til sín.
„Við erum stöðugt að endurmeta ástandið út frá því hvenær hægt verður að búa að einhverju leyti í Grindavík.“
Enn er engin starfsemi í Bláa lóninu. Til skoðunar var að opna það aftur á morgun en það verður ekki gert.
„Það verður endurmat á því eftir helgina. Það er sem sagt stöðufundur um það mál á mánudaginn.“
Víðir segir að þó mögulega verði hægt að opna fyrir gesti í lónið á ný á næstunni gildi ekki það sama um hótelið.
„Ef það er ekki talið öruggt að vera í Grindavík á nóttunni þá verður hótelið ekki opnað.“