Fótbolti

Konur eru ekki litlir karlar

Aron Guðmundsson skrifar
Sólveig Þórarinsdóttir, sjúkraþjálfari og doktorsnemi, er ein þeirra sem stendur að baki áhugaverðri rannsókn um heilsufar leikmanna í norsku úrvalsdeildinni í kvennafótboltanum.
Sólveig Þórarinsdóttir, sjúkraþjálfari og doktorsnemi, er ein þeirra sem stendur að baki áhugaverðri rannsókn um heilsufar leikmanna í norsku úrvalsdeildinni í kvennafótboltanum. Vísir/Arnar Halldórsson

Sól­veig Þórarins­dóttir, sjúkra­­þjálfari og doktors­­nemi, er ein þeirra sem stendur að baki rann­­sókn sem vakið hefur at­hygli og stuðlað að góðum breytingum í norska kvenna­­boltanum. Rann­sóknin snýr að heilsu­fari leik­manna í deildinni en þekking okkar á kvennaknatt­­spyrnunni er afar tak­­mörkuð. Hún hefur staðið í skugganum á karlaknatt­­spyrnunni og að­eins 7% gagna í knatt­­spyrnu­heiminum byggja á reynslu okkar og þekkingu af kvennaknatt­­spyrnu.

Rann­sókn Sól­veigar og kollega hennar við norska í­þrótta­há­skólann var birt í tíma­ritinu virta British Journal of Sports Medicine og norska knatt­spyrnu­sam­bandið tekur niður­stöðum hennar al­var­lega.

Sam­bandið hefur á­kveðið að verja því sem nemur 50 milljónum ís­lenskra króna í að styrkja um­gjörðina í kringum liðin í efstu deild kvenna. Til dæmis með því að skylda lið til þess að hafa sjúkra­þjálfara á æfingu að minnsta kosti þrisvar sinnum í viku. Þá verður fræðsla fyrir sjúkra­þjálfara í deildinni aukin til muna.

Leikmönnum fylgt eftir í tvö ár

Það sem rann­sóknar­aðilar gerðu var að fylgja eftir leik­mönnum efstu deildar kvenna í Noregi í tvö ár, árið 2020 og 2021.

„Þetta voru því um þrjú hundruð leik­menn sem við fylgdum eftir í þennan tíma og vildum með því skoða al­mennt heilsu­far þeirra,“ segir Sólveig. „Við spurðum þær því í hverri einustu viku hvort þær hafi meiðst eða veikst. Leik­mennirnir svöruðu því annað hvort játandi eða neitandi og gáfu okkur nánari upp­lýsingar ef þær svöruðu spurningunni játandi.

Marg­þættar á­stæður liggja að baki rann­sókninni og er ein þeirra sú stað­reynd að það vantar gríðar­lega mikið af gögnum og þekkingu um knatt­spyrnu­konur.

„Það eru um það bil 7% af gögnum í knatt­spyrnu­heiminum sem eiga við konur, 93% eru um karla. Allt sem við gerum í knatt­spyrnunni er svo­lítið gert með til­liti til karla. Við vildum því með þessari rann­sókn fylla að ein­hverju leiti upp í þetta risa­stóra þekkingargat sem hefur myndast.

Svo myndi ég líka segja, með til­liti til alls þess sem hefur verið að gerast í kvennaknatt­spyrnunni undan­farin ár, að hraðinn í kvenna­boltann er orðinn svo miklu, miklu meiri. Þá eru gæðin, um­gjörðin og fag­leg­heitin einnig tekið stökk upp á við.

Þessi þróun varð þess valdandi að okkur fór að gruna að hún hefði haft á­hrif á það hvernig leik­menn meiða sig. Okkur grunaði til dæmis að vöðva­tognanir væru orðnar al­gengari hjá kven­kyns leik­mönnum út af þessum aukna hraða leiksins.“

Grunurinn reyndist á rökum reistur

Rann­sóknin leiðir í ljós ýmsar á­huga­verðar niður­stöður.

„Helstu niður­stöður okkar rann­sóknar voru þær að á hverjum tíma­punkti var ein af hverjum þremur leik­mönnum með ein­hvers konar heilsu­fars­vanda. Það er að segja meidd eða veik. Það er rosa­lega hátt hlut­fall og ein af hverjum fimm var með það al­var­legt vanda­mál að hún annað hvort gat ekki staðið sig eins og hún vildi eða þá að hún þurfti hrein­lega að sitja hjá.“

Ingibjörg Sigurðardóttir í leik með norska úrvalsdeildar liðinu Vålerenga.Vålerenga

„Ef við tökum bara venju­legt fót­bolta­lið sem er kannski með tuttugu og þrjá leik­menn. Þá eru fimm leik­menn á hverjum tíma­punkti sem geta annað hvort ekki verið með eða geta ekki beitt sér að fullu, eru undir getu á æfingu. Það getur haft gríðar­leg á­hrif á leik­manninn sjálfan sem knatt­spyrnu­konu en einnig á liðið. Ef það eru fimm leik­menn í sama liði sem geta annað hvort ekki verið með eða eru að spila undir getu vegna meiðsla, þá getur það haft á­hrif á gæði æfinga.“

Og þá reyndist grunur Sól­veigar og kollega hennar á aukinni tíðni vöðva­meiðsla eiga fót fyrir sér.

„Vöðva­tognanirnar voru al­gengasta tegund þeirra meiðsla sem voru að hrjá leik­menn. Það er eitt af því mikil­vægasta sem rann­sóknin leiðir í ljós. Af því þar erum við al­gjör­lega á núll­punkti varðandi kven­kyns leik­menn og þurfum að byrja frá grunni. Svo fundum við líka út að al­var­legustu meiðslin sem hrjá þessa leik­menn eru enn kross­banda­slit og heila­hristingur.“

Nú þegar farið í næstu skref

Getum við eitt­hvað sagt um or­sakirnar eða er það eitt­hvað sem verður farið út í núna að rann­saka?

„Það nefni­legast akkúrat það sem tekur við núna. Það var í rauninni hluti af planinu okkar að skoða það líka í þessari rann­sókn en Co­vid heims­far­aldurinn setti þar strik í reikninginn.“

Nú sé hins vegar komið skrið á næstu skref. Til að mynda hefur annar rann­sóknar­aðili tekið við keflinu og er byrjaður að skoða hvort hægt sé að finna ein­hverja á­hættu­þætti varðandi meiðslin og tíðni þeirra sem rann­sóknar Sól­veigar og kollega hennar leiðir í ljós.

Frá leik íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnuVísir/Pawel Cieslikiewicz

Þá er Sól­veig sjálf að skoða annan anga í tengslum við þetta.

„Við erum tvö sem deilum þessu verk­efni al­gjör­lega, ég og Roar A­mund­sen. Við á­kváðum að skipta þeim verk­efnum sem hafa nú tekið við þannig að ég skoða nára- og mjaðma­meiðsli hjá stelpunum og hann skoðar aftan í læris tognanir. Við erum á al­gjörum núll­punkti hvað varðar þessi meiðsli hjá konum og þurfum því að vita hvernig þessi meiðsli eru. Eru þau eins og hjá körlum? Þær rann­sóknar­greinar hjá okkur verða vonandi birtar bara á næstu vikum.“

Sól­veig hefur að auki hug á að kanna tengsl blæðinga og hormónagetnaðar­varna við heilsu knatt­spyrnu­kvenna.

Brennur fyrir knattspyrnu kvenna

Það er ekki síður reynsla Sól­veigar af sínum eigin knatt­spyrnu­ferli sem hefur ýtt henni í þá átt að rann­saka kvennaknatt­spyrnuna betur. Sól­veig, sem á að baki lands­leik fyrir Ís­lands hönd, þurfti sjálf að leggja skóna snemma á hilluna vegna meiðsla. Hún brennur fyrir hags­munum kvennaknatt­spyrnunnar og leggur sitt lóð á vogar­skálarnar að efla þekkingu okkar á henni

„Knatt­spyrna kvenna hefur staðið nærri hjarta mínu frá því að ég var lítið. Þegar að ég sá þessa tölu 7%. Að 7% gagna séu byggð á konum í knatt­spyrnu­heiminum, þá fékk ég smá sting í hjartað. Ég æfði sjálf fyrst fót­bolta með strákum og svo seinna meir stelpum og fann strax muninn. Þá var ég tólf ára gömul. Þetta skiptir ó­trú­lega miklu máli, að við finnum fyrir virðingunni. Við þurfum að skoða konur sér­stak­lega. Við erum ekki litlir karlar.“

Sólveig er að vinna gott starf í þágu kvennaknattspyrnunnarVísir/Arnar Halldórsson

„Svo átti ég kannski helst til stuttan feril sjálf. Ég meiðist um tví­tugt, þá komin á skrið á mínum knatt­spyrnu­ferli. Var búin að vinna mig upp yngri lands­liðin. Það að knatt­spyrnu­konur eigi sem lengstan og hraustastan knatt­spyrnu­feril. Ég hrein­lega brenn fyrir því.“

Verðum við vonandi komin á þann stað ein­hvern tímann að þekking okkar á kvenna- og karlaknatt­spyrnunni verði jafn mikil?

„Það er bara draumur minn. Við getum orðað það þannig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×