Skoðun

Hættum að brenna olíu og tíma!

Haraldur Þór Jónsson skrifar

Orkuöryggi heimilanna í landinu er stefnt í voða. Búið er að leggja fram neyðarlög á alþingi til þess að tryggja það að heimilin fái nú örugglega rafmagn. Sú græna orkuvinnsla, bæði með heitu vatni og rafmagni, sem stunduð hefur verið á Íslandi er undirstaða okkar lífsgæða. Undirstaða efnahagslegs sjálfstæði okkar sem þjóðar.

Fyrir 60 árum lögðum við grunn að því raforkukerfi sem við þekkjum í dag. Það gerðum við með því að undanskilja raforkuframleiðslu frá öllum sköttum ríkis og sveitarfélaga, nema því að borga fasteignagjöld af húsum. Orkuframleiðslan var skilgreind þjóðhagslega mikilvæg og ekki byggð upp til að skila arði.

Fyrir 20 árum síðan var raforkulögunum breytt og framleiðsla og sala á raforku var gerð að samkeppnismarkaði. Arðsemiskrafa var sett á orkuframleiðslu og því engin forsenda lengur fyrir undanþágum frá lögboðnum tekjustofnum ríkis og sveitarfélaga. Þá var búið að afnema allar undanþágur orkufyrirtækjanna frá sköttum til ríkisins en eftir sátu undanþágur orkumannvirkja frá fasteignamati og því að greiða fasteignagjöld til sveitarfélaga.

Í dag er takmarkaður ávinningur fyrir sveitarfélög til þess að heimila uppbyggingu á orkumannvirkjum. Slík staða getur ekki gengið lengur. Það verður að afnema undanþágu orkufyrirtækjanna frá lögboðnum tekjustofnum sveitarfélaganna til þess að tryggja nærumhverfi orkuvinnslu efnahagslegan ávinning í frekari grænni orkuframleiðslu sem nauðsynlegt er að ráðast í strax.

Sveitarfélögin hafa unnið heimavinnuna á þessu ári og lagt fram fullmótaðar og sanngjarnar hugmyndir um hvernig afnema megi síðustu undanþágu orkuvinnslu frá lögboðnum tekjustofnum sveitarfélaganna. Með því móti kæmust sveitarfélögin á Íslandi á sambærilegan stað og sveitarfélög í Noregi hafa verið í um áratuga skeið, enda hafa byggst upp öflug sveitarfélög í Noregi þar sem orkuframleiðsla á sér stað, annað en á Íslandi.

Þann 7. júní síðastliðinn skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp til að endurskoða skattaumhverfi orkuvinnslu á Íslandi. Starfshópurinn á að skila af sér í þessari viku. Mikilvægt er að niðurstaðan leiði til þess að frekari græn orkuframleiðsla skili efnahagslegum ávinningi í nærumhverfið. Á alþingi í dag kom hver stjórnarandstöðuflokkurinn á fætur öðrum upp í pontu og lýsti yfir stuðningi við allar þær aðgerðir sem myndu auka græna orkuframleiðslu. Sanngjarnar tekjur til nærsamfélagsins eins og allar aðrar atvinnugreinar þurfa að greiða mun tryggja aukna græna orkuvinnslu og á sama tíma tryggja öflug samfélög á landsbyggðinni þar sem orkuframleiðslan á sér stað. Ekki ætti að vera erfitt að koma slíku frumvarpi í gegnum Alþingi miðað við stuðningsyfirlýsingar stjórnarandstöðuflokka á Alþingi í dag.

Hættum að brenna olíu og tíma, hefjum uppbyggingu aukinnar grænnar orkuframleiðslu og á sama tíma byggjum upp öflug og eftirsóknarverð samfélög í nærumhverfi orkuframleiðslu.

Höfundur er oddviti- og sveitarstjóri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem mest raforka hefur verið framleidd í sögu Íslands.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×