Þetta kom fram þegar aðalmeðferð málsins var framhaldið í Héraðsdómi Norðurlands eystra í morgun. Steinþór Einarsson sætir ákæru fyrir að hafa banað Tómasi í íbúð á Ólafsfirði í október í fyrra.
Læknirinn sagði aðspurð um hvenær Tómas hefði misst meðvitund það líklega hafa gerst nokkrum mínútum eftir að hann var stunginn. Yfirleitt þurfi fólk að missa fjörutíu til fimmtíu prósent blóðs til að fara í lost.
Jafnframt sagði læknirinn ekki hægt að útiloka að sárin hefðu verið sjálfskaði, en það væri ólíklegt.
Sárin voru bæði neðarlega vinstra megin við kvið Tómasar, en annað þeirra reif slagæð í sundur sem er talinn vera dánarorsök hans.
Að sögn læknisins voru sárin tvö svipuð og bentu gögn málsins til þess að hníf hefði verið stungið að ofan, niður í kvið Tómasar. Einnig mat læknirinn sárin þannig að tveir mismunandi kraftar hefðu valdið sárunum, en líklega væri um að ræða hreyfingar í takt við hvor aðra.
Læknirinn mat það svo að ólíklegt væri að hnífurinn myndi fara eins djúpt og raun ber vitni fyrir slysni.
„Það er þannig í réttarlæknisfræðinni að það er ekkert hægt að útiloka, en okkur finnst það mjög ólíklegt.“