Mahmoud hefur verið á Íslandi frá því árið 2021 og fékk samþykkta fjölskyldusameiningu fyrir fjölskyldu sína fyrir um mánuði síðan. Hann á eiginkonu og fjögur börn á Gasa. Áður en hann fór bjuggu þau saman í Khan Younis borginni á Gasa. Fjölskyldan þurfti nýlega að yfirgefa heimili þeirra í eftir að sprengjum rigndi yfir svæðið. Þau halda nú til í flóttamannabúðum við Rafah og bíða þess að komast út.
Frá upphafi októbermánaðar hefur Útlendingastofnun gefið út um 100 dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Frá upphafi árs eru þau 150. Af þeim 100 sem hafa fengið leyfi frá upphafi október hefur enginn enn komist til landsins. Flestir eru enn fastir inn á Gasa og hefur gengið erfiðlega að koma þeim yfir til Egyptalands en dvalarleyfin hafa verið send til sendiráðs í Kaíró.
Þar vinna hjálparsamtök að því að koma fólkinu í gegnum landamærin við Rafah hafa þangað til um helgina verið einu opnu landamærin frá Gasa svæðinu.
„Ég er þakklátur fyrir allt það sem íslensk yfirvöld eru að gera. Fyrir að hjálpa okkur og samþykka fjölskyldusameininguna. En ég vil biðla til utanríkisráðherra að vinna hraðar að því að ná fjölskyldu minni út. Ástandið þarna er hræðilegt. Það er ekkert vatn, enginn matur og ekkert samband. Það eru loftárásir á öllu Gasa svæðinu.“
Mahmoud segir að hann fylgist vel með og hafi séð að önnur lönd eins og Belgía, Svíþjóð og Ástralía hafi náð að koma fólki til landsins frá Palestínu. Mikið hefur verið fjallað um það í erlendum miðlum síðustu vikur að erfiðlega gangi að koma fólki yfir landamærin. Sama hvaðan fólk er.
Elsta barn Mahmoud er tólf ára og það yngsta fimm ára. Hann segir erfitt að útskýra fyrir börnunum að þau séu komin með dvalarleyfi en komist ekki út. Þau bíða eftir því í flóttamannabúðum í Rafah.
„Þau voru fyrst í Khan Younis en svo var allt eyðilagt þar og þá flúðu þau til Rafah. Þau halda til í skóla í flóttamannabúðum þar. Þau eiga bókstaflega engan mat. Abdalnasser spurði um mat í gær og mamma hans gat ekkert eldað nema hrísgrjón. Hrísgrjón með engu öðru fyrir öll börnin,“ segir Mahmoud miður sín.
Mahmoud er búinn að með eitt íslenskunámskeið og ætlaði að halda áfram en hefur ekki getað einbeitt sér að því frá því að stríðið hófst. Hann hefur undanfarið varið tíma sínum í að laga hjól sem hann fékk gefins. Þegar hann er ekki að því situr hann fastur fyrir framan sjónvarpið. Hann segir lífið hreinlega hafa stöðvast í byrjun október og hann komi litlu í verk.
„Ég vann sem vélvirki hér áður og kann því að laga hjól. Þetta eru hjól sem ég hef fengið gefins frá Íslendingum. Ég er búin að laga þau öll fyrir börnin mín,“ segir hann og að auk þess hafi hann lagað hjól fyrir eiginkonu sína.
„Ég vona að við getum notað þau öll þegar þau koma hingað.“
Hann talaði síðast við fjölskylduna á fimmtudag og segist áhyggjufullur. Það hafi verið loftárásir þar sem þau voru sama dag.
„Ég er mjög hræddur en ég vona, og vona, að ég fái að sjá þau öll aftur.“
Hvernig líður þér?
„Ég er með ást í hjartanu en mér líður ekki eins og ég sé á lífi. Þetta er allt mjög raunverulegt og ég vil bara að þessu sé lokið. Mér líður hræðilega og mér mun ekki líða vel fyrr en þau eru komin frá Gasa. Þegar þeim líður vel þá mun mér líða vel.“