Julian Brandt kom Dortmund yfir eftir hálftíma leik er liðið tók á móti fallbaráttuliði Mainz í kvöld áður en Sepp van den Berg jafnaði metin fyrir gestina stuttu fyrir hálfleik og þar við sat.
Niðurstaðan því 1-1 jafntefli og Dortmund hefur nú tapað stigum í seinustu fjórum deildarleikjum. Liðið situr í fimmta sæti deildarinnar með 26 stig eftir 16 leiki, 15 stigum á eftir toppliði Bayer Leverkusen sem á leik til góða.
Mainz situr hins vegar í 15. sæti með tíu stig og aðeins markatalan heldur liðinu fyrir ofan fallsvæðið.
Þá gerði RB Leipzig einnig 1-1 jafntefli er liðið heimsótti Werder Bremen. Lois Openda kom Leipzig yfir með marki í upphafi síðari hálfleiks áður en Justin Njinmah jafnaði metin fyrir Werder Bremen þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum.
Leipzig situr í þriðja sæti deildarinnar með 33 stig eftir 16 leiki, en Werder Bremen situr í 13. sæti með 16 stig.
Að lokum gerðu Hoffenheim og Darmstadt 3-3 jafntefli í fjörugum leik þar sem Andrej Kramaric kom Hoffenheim yfir með marki úr vítaspyrnu á 14. mínútu. Luca Pfeiffer jafnaði hins vegar metin fyrir Darmstadt á 23. mínútu áður en Ihlas Bebou sá til þess að heimamenn í Hoffenheim fóru með 2-1 forystu inn í hálfleikshléið.
Tim Skarke jafnaði metin á nýjan leik fyrir gestina snemma í síðari hálfleik áður en Bebou kom Hoffenheim yfir í þriðja sinn í leiknum þegar enn voru 25 mínútur til leiksloka.
Skarke var hins vegar aftur á ferðinni á 85. mínútu þegar hann jafnaði metin í þriðja sinn og lokatölur urðu því 3-3.
Hoffenheim situr í sjötta sæti deildarinnar með 24 stig, en Darmstadt situr á botni deildarinnar með tíu stig.