Handbolti

U-18 ára lands­liðið í undan­úr­slit

Smári Jökull Jónsson skrifar
 Antoine Óskar Pantano (Grótta) og Daníel Montoro (Valur) voru markahæstir hjá íslenska liðinu gegn Belgum.
Antoine Óskar Pantano (Grótta) og Daníel Montoro (Valur) voru markahæstir hjá íslenska liðinu gegn Belgum. Facebooksíða HSÍ

U-18 ára landsliðs íslands karla í handbolta er komið í undanúrslit á Sparkassen Cup sem fram fer í Þýskalandi þessa dagana.

Landslið karla í handbolta skipað leikmönnum 18 ára og yngri lék tvo leiki á Sparkassen Cup í Þýskalandi. Liðið lék fyrsta leik sinn á mótinu í gær þegar liðið vann öruggan sigur á liði skipuðu leikmönnum frá Saar-héraði í Þýskalandi.

Í fyrri leik dagsins mætti liðið heimaliði Þjóðverja. Heimamenn tóku forystuna snemma og leiddu 13-8 í hálfleik. Á heimasíðu HSÍ kemur fram að strákarnir hafi byrjað síðari hálfleikinn af krafti en Þjóðverjar sigur síðan fram úr. Lokatölur 26-18 fyrir Þýskaland.

Ágúst Guðmundsson og Jens Bragi Bergþórsson fóru fyrir íslenska liðinu í markaskorun, Ágúst skoraði 6 mörk en Jens Bragi 5.

Í seinni leik dagsins voru mótherjarnir Belgar. Þar var ljóst snemma að íslenska liðið var sterkara og var tólf marka munur í hálfleik, staðan þá 17-5. Íslensku strákarnir héldu áfram að hamra járnið eftir hlé og unnu að lokum nítján marka sigur. Lokatölur 33-14.

Antoine Óskar Pantano var markahæstur í íslenska liðinu með 9 mörk en Daníel Montoro skoraði 8. 

Með sigrinum tryggði íslenska liðið sér sæti í undanúrslitum mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×