Sport

Oscar Pistorius sleppur úr fangelsinu í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mál Oscar Pistorius vakti mikla fjölmiðlaathygli en hann má ekki ræða við fjölmiðla eftir að hann sleppur út.
Mál Oscar Pistorius vakti mikla fjölmiðlaathygli en hann má ekki ræða við fjölmiðla eftir að hann sleppur út. Getty/Charlie Shoemaker

Suður-Afríkumaðurinn Oscar Pistorius gengur í dag út úr fangelsi í Suður-Afríku tæpum ellefu árum eftir að hann skaut kærustu sína, Reevu Steenkamp, til bana á heimili þeirra.

Pistorius var dæmdur í þrettán ára og fimm mánaða fanglesi fyrir manndrápið en fangar mega sækja um reynslulausn þegar þeir hafa setið af sér helming dómsins. Skilorðsnefnd í fangelsi hans í Suður-Afríku veitti honum reynslulausn í nóvember síðastliðnum.

Pistorius er nú 37 ára gamall en hann hefur setið í fangelsi síðan í október 2014.

Pistorius þarf að framfylgja ströngum skilyrðum eins og að fara á námskeið í reiðistjórnum og sinna samfélagsþjónustu.

Hann mun lifa undir þessum ströngu skilyrðum til ársins 2029 þegar dómurinn átti að renna út. Pistorius þarf að halda sig heima á ákveðnum tímum sólarhringsins og má ekki drekka áfengi. Hann má heldur ekki tala við fjölmiðla.

Skilorðsnefndin sagði að Pistorius þurfi að gera það sama og allir sem fá slíka reynslulausn og fær því enga sérmeðferð þrátt fyrir frægð sína.

Pistorius var dæmdur fyrir að bana kærustu sinni Reeva Steenkamp á Valentínusardeginum 2013. Hann skaut hana fjórum sinnum í gegnum baðherbergishurðina en taldi sig vera að skjóta innbrotsþjóf.

Pistorius var þjóðhetja eftir afrek sín í frjálsum íþróttum fatlaðra og vakti líka heimsathygli fyrir að keppa við heilbrigða á stórmótum eins og á Ólympíuleikum. Hann missti báða fætur ellefu mánaða gamall. Pistorius vann alls sex gullverðlaun á Ólympíumótum fatlaðra frá 2004 til 2012.

Pistorius fékk upphaflega fimm ára dóm en hæstiréttur lengdi seinna dóminn í þrettán ár og fimm mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×