Skoðun

Gjör rétt - þol ei ó­rétt!

Kristinn Karl Brynjarsson skrifar

Það er mér algerlega lífins ómögulegt eftir úrskurð umboðsmanns Alþingins í Hvalveiðimálinu svokallaða og viðbragða hlutaðeigandi ráðherra og samstarfsflokka, að styðja á nokkurn hátt ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Viðbrögð matvælaráðherra, vegna úrskurðarins, sem voru eitthvað á þann hátt, að nauðsynlegt hafi verið, þar sem lögin sem unnið hafi verið eftir séu svo gömul og úrelt að ganga fram með þessum hætti. Það er að þverbrjóta stjórnsýslulög og ganga jafn freklega fram gegn stjórnarskrárvörðum rétti manna og raun ber vitni, eru svo gersamlega víðáttuvitlaus, óforskömmuð og gersamlega fordæmalaus, að segja má að ráðherrann hafi með þeim í rauninni verið að senda Alþingi Íslendinga, löggjafanum sjálfum og þjóðinni löngutöng.

Það að ætla svo bara að taka þessu, eins og hverju öðru hundsbiti og halda þessu ríkisstjórnarsamstarfi óbréyttu áfram er svo eiginlega enn verra en viðbrögð ráðherrans. Ríkisstjórnarsamstarf með óbreyttri ráðherraskipan, þýðir í rauninni það eitt, að samstarfsflokkar ráðherrans og reyndar hans eiginn flokkur, samþykkja með gjörðum sínum túlkun og viðbrögð ráðherrans á úrskurði umboðsmanns, þó þeir telji sig kannski meina annað með orðum sínum. En orð eru einskis virði, ef athafnir manna stefna svo í aðra átt.

Það er að vísu alveg rétt, að framundan eru stór mál sem þarf að leysa, eins og verðbólga, vextir og að ná lendingu með aðilum vinnumarkaðsins. Bæði hins almenna og þess opinbera. Einnig er hægt að nefna önnur stór mál, eins og orkumál og útlendingamál. En þau verkefni er þó öll vel hægt að leysa, án aðkomu þess sem nú situr í stóli matvælaráðherra. Sjálfsagt myndi einhver segja að það gengi betur, ef téður ráðherra væri hvergi sjáanlegur og jafnvel enn betra betra ef að flokkur ráðherrans væri einnig í hæfilegri fjarlægð.

Það þarf bara að hefjast handa og ekki una sér hvíldar uns árangri er náð. Það er ekkert minna undir en eitt stykki framtíð og velferð heillar þjóðar. Hvort um sig hlýtur í hugum okkar flestra að vega þyngra, en pólitískt líf hæstvirts matvælaráðherra.

Gjör rétt – þol ei órétt!

Höfundur er formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×