Handbolti

Snorra fannst ekkert fyndið við aug­lýsinguna

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson hló ekki mikið að auglýsingu TV2. Þegar fréttamaður stöðvarinnar leitaði eftir viðbrögðum Snorra var hann ískaldur í svörum.
Snorri Steinn Guðjónsson hló ekki mikið að auglýsingu TV2. Þegar fréttamaður stöðvarinnar leitaði eftir viðbrögðum Snorra var hann ískaldur í svörum. Vísir/Vilhelm

Snorra Steini Guðjónssyni fannst ekki mikið koma til dönsku auglýsingarinnar þar sem grín var gert að íslenska liðinu og það sagt sækjast í silfur. Snorri svaraði kaldhæðnislega í viðtali við sjónvarpsstöðina og sagðist ekki sjá húmorinn. 

Danska sjónvarpsstöðin TV2 sendi út auglýsingu á dögunum þar sem búið var að klippa saman leikhlé hjá öðrum liðum, því íslenska meðal annars, og setja danskan texta undir það sem leikmenn og þjálfarar sögðu. 

Textinn við auglýsinguna passaði engan veginn við það sem sagt var. Grínið gekk út á það að öll önnur lið væru aðeins mætt á mótið til að sækja silfur, gullið væri frátekið fyrir Danina sjálfa. 

Snorri var svo í viðtali á TV2 þar sem fréttamaður reyndi að knýja fram viðbrögð. 

„Við erum að berjast um silfur. Er það ekki það sem þið sögðuð?“ svaraði Snorri þegar fréttamaður spurði hann um markmið liðsins á mótinu.

Þannig að þú hefur séð auglýsinguna?

- Já, ég hef séð hana.

Hvað fannst þér um hana?

- Hún var góð. Hún er mjög góð.

Sérðu húmorinn í henni?

- Nei, ég get það ekki, en hún var góð.

Af hverju fannst hún þér hún góð?

- Mér fannst hún bara góð.

Geturðu ekki útskýrt hvað var svona gott?

- Nei það get ég ekki.

Fer það í taugarnar á þér að auglýsingin tali svona um önnur lið?

- Nei, það kveikir ekki undir mér. Ég hef minn metnað og mér er alveg sama hvað segir í auglýsingu. Ég er ekkert sérstaklega áhugasamur um það, en auglýsingin er góð.

En þú getur séð húmorinn í því og að það sé gert til gamans?

- Nei það ég get ekki. Ég var að segja að þetta sé góð auglýsing, en mér finnst hún ekki fyndin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×