Innlent

Erfitt að lýsa hvernig er að sjá sam­fé­lagið brotna hægt og ró­lega

Bjarki Sigurðsson og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Haukur Einarsson Grindvíkingur var í bænum í fyrsta sinn í tvo mánuði þegar rýmingin átti sér stað. 
Haukur Einarsson Grindvíkingur var í bænum í fyrsta sinn í tvo mánuði þegar rýmingin átti sér stað.  Vísir/Sigurjón

Gist var í níutíu húsum í Grindavík í nótt og eins og áður segir gekk rýmingin vel í nótt. Einn þeirra sem gisti í bænum segir erfitt að lýsa því hvernig það er að horfa á samfélagið sitt hægt og rólega brotna niður. Hann segist hafa náð að halda ró sinni við rýmingu en mögulega eigi sorgin eftir að koma síðar.

Þeir Grindvíkingar sem dvöldu í bænum í nótt vöknuðu við sírenur þegar Almannavarnir hófu að rýma bæinn skömmu eftir klukkan fjögur í morgun. Gist var á um það bil níutíu heimilum, svipað og hafði verið dagana þar á undan.

Einn þeirra sem sváfu í bænum í nótt er Haukur Einarsson. Hann fór með eiginkonu sinni í bæinn í fyrsta sinn í tvo mánuði í gær.

„Við lentum í matarboði hjá góðum vinum, allt gekk í lyndi og bara allt í rólegheitum. Fáir í bænum. Svo byrjaði hundurinn að gelta um þrjú leytið, sonur minn hringdi skömmu eftir en hann var andvaka í Reykjavík. Strax í kjölfarið kemur SMS um rýmingu. Þá var bara að taka saman og fljótlega heyrði ég í sírenum í bænum,“ segir Haukur.

Hvernig var tilfinningin að koma í bæinn í fyrsta skipti í tvo mánuði og þurfa svo að rýma allt?

„Ég var svo sem alveg rólegur yfir því en það hefur svo margt verið að hellast yfir okkur Grindvíkinga, sem er búið að slá okkur hægri vinstri. Sorgin kemur kannski seinna. Maður reynir að vera sterkur í dag, komast í gegnum þetta.“

Innviðir í bænum séu ekki það mikilvægasta í stóra samhenginu.

„Húsið mitt er dauður hlutur. Það er samfélagið sem ég bý í. Það tekur mig sárt,“ segir Haukur. „Þetta er samfélagið sem maður er að sjá hægt og rólega brotna. Það er erfitt að lýsa því í lýsingarorðum hvernig maður horfir á það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×