Innlent

Hraunflæði innan bæjarmarkanna fjarar út

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hraunflæðið úr syðri sprungunni hefur nú þegar valdið gríðarlegum skemmdum í Grindavík.
Hraunflæðið úr syðri sprungunni hefur nú þegar valdið gríðarlegum skemmdum í Grindavík. RAX

„Okkur sýnist syðri sprungan, sem er innan bæjarmarkanna, alveg vera að gefa upp öndina,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu.

„Það koma spýjur sem rétt ná upp á yfirborðið öðru hverju. En það er alveg rosalega lítil virkni, þannig mér sýnist þetta alveg vera að fjara út núna.“

Jafnframt segir Elísabet að þar af leiðandi hafi hraunrennsli úr þeirri sprungu líka stöðvast. Hraun úr sprungunni hefur valdið eldsvoða í þremur húsum í Grindavík. Svo virðist sem hraunið hafi numið staðar við girðingu að garði fjórða hússins.

Syðri sprungan hefur verið talsvert smærri en sú sem er norðar, en þar sem hún myndaðist innan varnargarðs, sem átti að vernda Grindavík, hefur hún ógnað byggð talsvert meira. Líkt og áður segir hefur hraunflæði úr henni nú þegar valdið miklum skemmdum í Grindavík, með eldsvoða í þremur húsum.

Elísabet segir að Veðurstofan hafi orðið vör við vinnu vestast í Grindavík í nótt, þar sem hinn hraunstraumurinn gæti farið að ógna. „Það er svolítið í það, en þeir eru búnir að vinna hörðum höndum í nótt. Þeir reyna að koma upp einhverjum vörnum þar.“

Aðspurð um hvort lok syðri sprungunnar hafi eitthvað að segja um líkur á nýjum gossprungum í þessum atburði segir Elísabet erfitt að segja til um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×