Innlent

Jörðin gaf sig undan björgunarsveitamanni

Margrét Björk Jónsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Atvikið þar sem jörðin gaf sig undan björgunarsveitamanni á gangi, náðist á myndband.
Atvikið þar sem jörðin gaf sig undan björgunarsveitamanni á gangi, náðist á myndband. Vísir/Arnar

„Þetta sýnir bara hversu ótryggt svæðið er hérna og hversu hættulegt þetta er. Ég var bara að labba eftir þessum stíg og það virtist allt vera í góðu lagi fyrir framan mig,“ segir björgunarsveitamaður að störfum í Grindavík. Rétt í þessu gaf jörðin sig þegar hann gekk eftir malbikuðum stíg.

Haraldur Haraldsson, meðlimur í björgunarsveitinni Suðurnes, var á gangi í Grindavík þegar hann skyndilega féll með lærið ofan í sprungu sem var ekki sjáanleg á yfirborðinu. Arnar Halldórsson, tökumaður, náði atvikinu á myndband sem sjá má hér að neðan.

Aðspurður um hvernig honum hafi orðið við segir Halldór að auðvitað standi honum ekki á sama, en atvikið sýni hversu raunveruleg hættan sé.

„Við verðum að fara varlega. Þó svo að okkur hafi verið hleypt hérna inn, í þetta sérverkefni, þá er þetta mjög hættulegur staður.“

Varað hefur verið við sprungum í bænum og Halldór segir þetta því ekki hafa komið beint á óvart. 

„En þar sem ég var að labba var yfirborðið algjörlega heilt. Þetta sýnir hversu hættulegt yfirborðið er hérna.“

Gaf malbikið sig bara?

„Já, það bara gaf sig undan mér.“

Nýjar sprungur að myndast og eldri að stækka

Gliðnun innan bæjarmarka Grindavíkur hefur verið allt að 1,4 metrar síðasta sólarhringinn. Nýjar sprungur hafa opnast og eldri sprungur stækkað.  Veðurstofan hefur greint frá því að nýjar sprungur gætu komið í ljós á yfirborði næstu daga. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, greindi þó frá því í viðtali við fréttastofu fyrr í dag að hann meti svæðið tiltölulega öruggt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×