Staðarblaðið Fædrelandsvennen segir frá því að leikmenn liðsins hafi hringt í fyrirtæki á svæðinu í neyðarsöfnun til að bjarga félaginu sínu frá gjaldþroti.
Blaðið segir að leikmennirnir hafi verið í símanum á milli tíu og tvö í gær. Félagið þarf að skera niður um fimm milljónir norskra króna sem jafngildir tæplega 66 milljónum íslenskra króna. NRK segir líka frá.
Vipers er frá Kristiansand í suður Noregi. Liðið hefur unnið Noregsmeistaratitilinn síðustu sex ár og að auki sex bikarmeistaratitla á sama tíma. Liðið vann líka Meistaradeildina undanfarin þrjú tímabil og hefur því verið besta kvennalið Evrópu í langan tíma.
Liðið er efst í norsku deildinni í vetur en aðeins í fjórða sæti í sínum riðli í Meistaradeildinni.
Aðalmarkvörður liðsins er norski landsliðsmarkvörðurinn Katrine Lunde en hún hefur verið félaginu í allri sigurgöngunni.
Íslenska landsliðskonan Þórey Rósa Stefánsdóttir er líka fyrrum leikmaður liðsins en margar frábærar handboltakonur frá Norðurlöndum hafa spilað með liðinu.
Meðal þeirra eru norsku súperstjörnurnar Nora Mörk, Henny Reistad, Heidi Löke og Isabelle Gulldén.