Innlent

Ekki búandi í Grinda­vík næstu mánuði og jafn­vel ár

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að búa þurfi Grindvíkingum einhvern fyrirsjáanleika.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að búa þurfi Grindvíkingum einhvern fyrirsjáanleika. Vísir/Einar

Gosinu við Grindavík virðist lokið en prófessor í jarðeðlisfræði segir viðbúið að svipaðir atburðir endurtaki sig á næstu mánuðum og jafnvel árum. Grindavík sé ekki öruggur staður á meðan.

Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði segir gosið virðast búið. „Síðasta slettan kom upp laust eftir klukkan eitt en síðan var smá glóð sem var horfin klukkan sex í morgun. Þannig að gosið er búið, það er ekki útilokað að það taki sig upp aftur en ósennilegt miðað við hvernig fyrri gos hafa hegðað sér,“ segir Magnús Tumi.

Ólíklegt sé að fleiri gosop opnist á allra næstunni og þrýstingur í kerfinu hafi minnkað. Kvika haldi þó áfram að streyma inn í hólf undir Svartengissvæðinu og því sé í raun sama staða uppi núna og eftir síðasta gos.

„Það er líklegt að við munum sjá endurtekningu á þessum atburðum sem við sáum núna.“ 

Þrjú hús urðu hrauninu að bráð og jaðar þess nær að því fjórða.vísir/Arnar

Lítill hluti hraunsins kominn upp miðað við fyrri atburði

Reikna verði með að þetta muni halda áfram. „Það má vel vera að það gjósi á mismunandi stöðum á þessari sömu sprungu. Við fengum þetta sunnarlega og það má vel vera að það verði norðar næst, við vitum ekkert um það. En þessir atburðir sem hafa orðið þarna áður, þeir hafa búið til hraun sem er töluvert meira en það sem er komið upp. Það er komið upp kannski tíu prósent af því sem kom upp á þessari sprungu fyrir tvö þúsund árum og kom upp í Eldvörpum fyrir átta hundruð árum. Við getum bara reiknað með að þetta haldi áfram.“

Geta ekki beðið í „limbói“

Mikil gliðnun hafi orðið í Grindavík og sprungur geti opnast innan varnargarða nærri bænum.

„Það er erfitt að segja til um framtíðina en fólk getur ekki beðið mánuðum og árum saman í einhverju limbói með sín heimili og annað. Það er ljóst að það þarf að fara í miklar aðgerðir til að reyna búa Grindvíkingum einhvern fyrirsjáanleika á næstunni,“ segir Magnús Tumi.

Magnús Tumi segir Grindavík ekki öruggan stað á næstu mánuðum og jafnvel árum.Vísir/Vilhelm

Í Grindavík sé bæði mikil hætta vegna sprungna og miklar skemmdir.

„Síðan er yfirvofandi goshætta og við þessar aðstæður er ljóst að það er ekki búandi í bæ sem býr við þetta. Við verðum að búa við aðstæður þar sem börnin geta farið út að leika sér og fólk getur slappað af heima hjá sér. Það er mjög erfitt að sjá þær aðstæður við núverandi ástand.“

Ómögulegt sé að segja til um hversu lengi þetta ástand varir. „En það er ekki ólíklegt að það vari í einhverja mánuði og jafnvel ár.“

Og varla búandi í Grindavík á meðan?

„Það tel ég ekki vera,“ segir Magnús Tumi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×