Handbolti

„Svona hegðun á ekki heima í okkar í­þrótt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn franska liðsins fagna sigri á Króatíu en þeir voru mjög ósáttir með framkomu stuðningsmanna Króatíu.
Leikmenn franska liðsins fagna sigri á Króatíu en þeir voru mjög ósáttir með framkomu stuðningsmanna Króatíu. Getty/Tom Weller

Það voru ljótar senur í leik Frakklands og Króatíu á Evrópumótinu í handbolta í gær en bæði liðin eru með íslenska liðinu í milliriðli og leikurinn fór fram á undan leik íslenska liðsins.

Frakkar voru mjög ósáttir með framkomu króatískra stuðningsmanna á meðan leiknum stóð.

Á einum tímapunkti þá stóð allt franska liðið upp og horfðist í augu við króatísku áhorfendurna fyrir aftan bekkinn þeirra.

„Við urðum að bregðast við í kvöld af því að þeir köstuðu hlutum í okkur. Stuðningsmennirnir sögðu líka hluti sem eiga ekki að heyrast. Þetta voru rasísk köll og við urðum reiðir. Þeir svívirtu okkur,“ sagði franski línumaðurinn Nicolas Tournat við Le Parisien en TV2 segir frá.

Guillaume Gille, þjálfari franska landsliðsins, staðfesti að á ýmsu hefði gengi fyrir aftan franska bekkinn.

„Ég get ekki staðfest þetta kynþáttaníð þeirra því ég skil ekki tungumálið. En þeir köstuðu íláti í okkur og það var ofbeldisfólk í stúkunni. Svona hegðun á ekki heima í okkar íþrótt,“ sagði Gille.

„Heilt yfir þá eru handboltastuðningsmenn til fyrirmyndar en þarna fór fólk langt yfir strikið,“ sagði Gille.

Króatískir fjölmiðlar sögðu frá því að slagsmál hafi brotist út meðal stuðningsmanna Króata og að þeir hafi kastað íláti í franska varamannabekkinn.

Frakkar unnu leikinn 34-32 og eru efstir í milliriðlinum með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×