Hinir venjulega pottþéttu íslensku hornamenn hafa engan veginn fundið sig á EM og klúðrað hverju færinu á fætur öðru. Sömu sögu er að segja af íslensku vítaskyttunum.
Þessi slæma nýting úr hornum og vítum reyndist sérstaklega dýr í tapinu nauma fyrir Þýskalandi, 26-24, í fyrsta leik Íslands í milliriðli 1 í gær.
Hornamenn Íslands, þeir Sigvaldi Guðjónsson, Óðinn Þór Ríkharðsson og Bjarki Már Elísson, skoruðu aðeins fimm mörk úr tólf skotum og þeir Viggó Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon klúðruðu báðir tveimur vítum í leiknum.
Íslendingar hafa alls klikkað á 22 af þeim 38 skotum sem þeir hafa tekið úr hornunum á þessu móti. Það gerir 42 prósent nýtingu sem er afleitt. Nýtingin úr vinstra horninu er 47 prósent (7/15) en 39 prósent (9/23) úr því hægra.
Íslendingar eru með langflest hornaklikk á mótinu, eða 22. Næstir koma Færeyingar og Hollendingar með tólf hvor.
Þá hafa Íslendingar klikkað á níu af þeim 24 vítum sem þeir hafa tekið á mótinu. Ómar Ingi hefur klúðrað sex vítum, Viggó tveimur og Bjarki Már einu.
Ísland er með flest vítaklikk á EM. Næst koma Svíþjóð og Tékkland með sex hvor.