Handbolti

Ung­verja­land í góðum málum eftir sigur á Króatíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
László Bartucz var frábær í marki Ungverja.
László Bartucz var frábær í marki Ungverja. EPA-EFE/CHRISTOPHER NEUNDORF

Ungverjaland vann þriggja marka sigur á Króatíu í milliriðli Evrópumóts karla í handbolta, lokatölur 29-26. Bæði lið eru með Íslandi í riðli en næsti mótherji strákanna okkar er Króatía.

Leikur dagsins var gríðarlega spennandi framan af og svo sannarlega stál í stál fyrstu mínúturnar. Eftir það tóku Ungverjar við sér og komust fjórum mörkum yfir áður en Króatar minnkuðu muninn í aðeins eitt mark í stöðunni 9-8. Skiptust liðin á að skora fram að lokum fyrri hálfleiks, staðan þá 14-13 Ungverjalandi í vil.

Króatía jafnaði metin snemma í síðari hálfleik og komst yfir um miðbik hans. Aftur tókst Ungverjum að snúa leiknum sér í vil og unnu á endanum þriggja marka sigur, 29-26.

Bence Imre var markahæstur í liði Ungverjalands með 7 mörk. Þá varði László Bartucz 16 skot í markinu. Filip Glavas og Tin Lučin skoruðu 5 mörk hvor í liði Króatíu. 

Sigurinn lyftir Ungverjalandi upp í 2. sæti milliriðilsins með 4 stig að loknum 3 leikjum á meðan Króatía er í næstneðsta sæti með aðeins eitt stig, einu stigi meira en íslenska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×