Handbolti

Versta byrjun þjálfara á stórmótum í hálfa öld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er óhætt að segja að þetta hafi ekki verið nein draumabyrjun hjá Snorra Stein Guðjónssyni.
Það er óhætt að segja að þetta hafi ekki verið nein draumabyrjun hjá Snorra Stein Guðjónssyni. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur aðeins unnið einn af fyrstu fimm leikjum sínum undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar á stórmóti.

Snorri Steinn vann fyrstu fjóra leiki sína sem landsliðsþjálfari en það voru allt æfingarleikir (á móti Færeyjum og Austurríki). Það hefur ekki gengið nærri því eins vel þegar komið er út í leikina sem skipta máli.

Eini sigur liðsins á Evrópumótinu í Þýskalandi var eins marks sigur á Svartfjallalandi en síðustu þrír leikir liðsins hafa allir tapast þar af tveir þeirra stórt.

Aðeins þrír aðrir landsliðsþjálfarar hafa tapað þremur af fyrstu fimm leikjum sem þeir hafa stýrt íslenska liðinu á stórmótum en Snorri er nú sá fyrsti í þeirri stöðu í hálfa öld.

Karl G. Benediktsson vann reyndar tvo fyrstu leiki sína sem þjálfari á stórmóti (HM 1964) en tapaði síðan næstu þremur. Hann er því með betri árangur í fyrstu fimm leikjunum en aðeins þrír þeirra komi á HM 1964 því leikur fjögur og fimm, sem töpuðust báðir, komu ekki fyrr en á HM tíu árum síðar.

Íslenskur þjálfari tapaði því síðast þremur af fyrstu fimm leikjum sínum á stórmóti árið 1974.

Aðeins einn þjálfari hefur tapað fleiri leikjum í fyrstu fimm á stórmótum en það er Hilmar Björnsson en undir hans stjórn tapaði íslenska liðið fjórum af fyrstu fimm leikjum sínum á HM í Frakklandi 1970.

Íslenska liðið er mínus sextán í markatölu í þessum fimm leikjum til þessa á EM en aðeins Hallsteinn Hinriksson (HM 1958 og HM 1961) og Hilmar Björnsson (HM 1970) voru með slakari markatölu í fyrstu fimm leikjum sínum á stórmótum.

Snorri Steinn og strákarnir hans ná vonandi að enda þessa taphrinu í leiknum á móti Króatíu í dag.

  • Flest töp í fyrstu fimm leikjum þjálfara á stórmótum
  • 4 - Hilmar Björnsson á HM 1970
  • 3 - Snorri Steinn Guðjónsson á EM 2024
  • 3 - Karl G. Benediktsson á HM 1964 og HM 1974
  • 3 - Hallsteinn Hinriksson á HM 1958 og HM 1961
  • 2 - Viggó Sigurðsson á HM 2005
  • 2 - Alfreð Gíslason á HM 2007
  • 2 - Aron Kristjánsson á HM 2013
  • 2 - Geir Sveinsson á HM 2017
  • -
  • Versta markatala í fyrstu fimm leikjum þjálfara á stórmótum
  • -20 Hallsteinn Hinriksson á HM 1958 og HM 1961
  • -18 Hilmar Björnsson á HM 1970
  • -16 Snorri Steinn Guðjónsson á EM 2024
  • -15 Karl G. Benediktsson á HM 1964 og HM 1974
  • +2 Þorbergur Aðalsteinsson á ÓL 1992
  • +6 Bogdan Kowalczyk á ÓL 1984



Fleiri fréttir

Sjá meira


×