Handbolti

„Mættir í stríð og þurfum að vera til­búnir“

Sindri Sverrisson skrifar
Elvar Örn Jónsson í loftinu í leiknum við Frakka á EM.
Elvar Örn Jónsson í loftinu í leiknum við Frakka á EM. VÍSIR/VILHELM

Elvar Örn Jónsson, einn af strákunum okkar á EM í handbolta, býr sig undir hörkuleik gegn Króötum í dag.

Ísland hefur aldrei unnið Króatíu á stórmóti í handbolta en nú þarf að verða breyting á. Króatía og Ísland eru einu liðin í milliriðli 1 sem ekki hafa unnið sigur, en Elvar segir Króata illviðráðanlega:

„Þetta eru Króatar. Hrikalega góðir í handbolta og hafa sýnt það á mótinu hvað þeir eru góðir. En við þurfum meira að hugsa um okkur. Við erum mættir í stríð og þurfum að vera tilbúnir,“ segir Elvar og vill sjá betri frammistöðu íslenska liðsins í dag en á mótinu til þessa.

Ísland á enn möguleika á að komast í undankeppni Ólympíuleikanna, með árangri sínum á EM, en til þess þarf liðið að vinna í dag og gegn Austurríki á miðvikudaginn. Vonin lifir eftir að Austurríki glutraði niður forskoti sínu gegn Þýskalandi í fyrrakvöld:

„Maður horfði eitthvað á leikinn og auðvitað gefur þetta okkur einhvern séns, en við þurfum að skila okkar núna og allur fókusinn er bara á okkur. Maður var stressaður í lokin en sem betur fer kom þarna heppni fyrir okkur og Þjóðverja,“ segir Elvar.

Klippa: Elvar um leikinn við Króata

Ísland spilaði tvo vináttulandsleiki við Austurríki fyrir mót, og vann þá báða, en Austurríkismenn hafa svo komið liða mest á óvart á EM:

„Mér finnst þeir líta hrikalega vel út. Markvörðurinn var frábær hjá þeim gegn Þjóðverjum, og maður sér hversu gott lið þetta er. Allir að spila fyrir hvern annan og þeir hafa verið hrikalega flottir á þessu móti,“ segir Elvar en er hægt að læra eitthvað af því sem Austurríki hefur gert á mótinu?

„Já, kannski getum við lært eitthvað af því. En ég hef fulla trú á okkur og veit hvað við getum. Við þurfum bara að ná því fram [í dag].“

Næsti leikur Íslands á EM er gegn Króatíu í dag klukkan 14:30 að íslenskum tíma. Öflugt teymi Vísis og Stöðvar 2 er í Köln og fjallar um mótið í máli og myndum.


Tengdar fréttir

„Mamma og pabbi reikna þetta út“

Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, segir að mótherjar dagsins á EM, Króatar, spili svipaðan handbolta og liðin sem Ísland mætti í fyrstu leikjunum á mótinu.

Þú trúir því ekki en markmið Snorra lifir

Hvað ef ég segði þér að það væri enn möguleiki á því að Ísland spilaði um 5. sæti á Evrópumótinu í handbolta? Eða að markmiðið um að komast á Ólympíuleikana í París í sumar sé enn vel raunhæft? Hvorugt er að minnsta kosti lygi.

Aron: Ætla rétt að vona að við nýtum okkur þetta

„Skrokkurinn er góður en almenn líðan er upp og ofan. Einn klukkutíma getur maður náð að gleyma en hinn fer allt á flug,“ segir Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, sem treystir því að íslenska landsliðið standi sig gegn Króötum á EM í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×