Innlent

Boða til blaða­manna­fundar vegna Grinda­víkur

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, mun leiða fundinn.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, mun leiða fundinn. Vísir/Ívar

Forsætisráðherra, innviðaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafa boðað til blaðamannafundar um stöðu vinnu við undirbúning aðgerða fyrir íbúa Grindavíkur.

Þetta kemur fram í stuttri tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Þar segir að fundurinn muni fara fram í skála Alþingis klukkan 13:30 í dag. Nánari upplýsingar um efni fundarins koma ekki fram í tilkynningunni.

Áður hefur Páll Valur Björnsson, íbúi í Grindavík, sagt í samtali við fréttastofu að hann telji Grindvíkinga vænta þess að á fundinum muni stjórnvöld tilkynna að þau muni borga Grindvíkinga út.

Páll segir að sér hafi virst sem svo að það hafi komið stjórnvöldum á óvart hve einróma íbúar hafi verið á íbúafundi í síðustu viku. Hann segist vongóður um að ríkisstjórnin muni kynna góðar aðgerðir á fundinum.

„En það er alveg ljóst í mínum huga og margra annarra, sem ég hef heyrt í, að fólk vill bara fá borgað út, á fullu verði eignirnar sínar, til þess að geta hafið annað líf, þannig að þessari martröð fari að ljúka. Því það er ekki hægt að líkja þessu við neitt annað en martröð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×