Handbolti

Þjóð­verjar snýttu Ung­verjum eftir slaka byrjun

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Julian Koster var frábær í kvöld.
Julian Koster var frábær í kvöld. Sanjin Strukic/Getty Images

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi unnu Ungverjaland með sjö marka mun í milliriðli Evrópumóts karla í handbolta, lokatölur 35-28. Sigur Þýskalands hefur því miður ekki jákvæð áhrif á Ólympíudrauma Íslands.

Ungverjar byrjuðu leikinn nokkuð vel og voru yfir lengi vel í fyrri hálfleik en á endanum voru það Þjóðverjar sem voru einu marki yfir þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik var aðeins eitt lið á vellinum og fór það svo að Þýskaland vann gríðarlega öruggan sigur, lokatölur 35-28. Julian Koster skoraði 8 mörk í liði Þýskalands á meðan Gabor Ancsin og Miklos Rosta skoruðu 6 mörk hvor í liði Ungverjalands.

Sigurinn gerir það að verkum að Þýskaland er við það að komast í undanúrslit Evrópumótsins. Lærisveinar Alfreðs mæta Króatíu í lokaumferð milliriðilsins og tryggja sér sæti í undanúrslitum með sigri. 

Hvað varðar Ólympíuvonir Íslands þá gerir sigur Þýskalands það að verkum að Ísland, Ungverjaland og Austurríki gætu öll endað með fjögur stig, fari svo að Ísland vinni Austurríki í lokaumferðinni. Fari svo að þjóðirnar endi allar með fjögur stig verður farið í innbyrðis viðureignir liðanna og þar er Ísland í vondum málum eftir stórt tap gegn Ungverjalandi fyrr í mótinu. 

Taki Ungverjar stig gegn Frakklandi þá dugir Íslandi að vinna Austurríki. Ef Ungverjar tapa fyrir Frakklandi þá þarf Ísland 5 marka sigur gegn Austurríki.

Staðan í riðlinum er sem stendur svona:

  • 1. Frakkland - 8 stig (+17 í markatölu)
  • 2. Þýskaland - 5 stig (+6)
  • 3. Austurríki - 4 stig (-4)
  • 4. Ungverjaland - 4 stig (+3)
  • 5. Ísland - 2 stig (-12)
  • 6. Króatía - 1 stig (-10)

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Frakkar réttu Ís­lendingum hjálpar­hönd

Frakkland lagði Austurríki með fimm marka mun í milliriðli EM karla í handbolta í dag, lokatölur 33-28. Sigurinn tryggir Frökkum sæti í undanúrslitum EM og heldur Ólympíudraumi okkar Íslendinga á lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×