Handbolti

Þóttist vera danskur hand­bolta­sér­fræðingur í kvöld­fréttum TV 2

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dönsku heimsmeistararnir hafa unnið alla leiki sína á EM. Þeir mæta Slóvenum í lokaleik sínum í milliriðli 2 í dag.
Dönsku heimsmeistararnir hafa unnið alla leiki sína á EM. Þeir mæta Slóvenum í lokaleik sínum í milliriðli 2 í dag. getty/Stuart Franklin

Óprúttinn aðili þóttist vera danski handboltasérfræðingurinn Rasmus Boysen í símaviðtali í kvöldfréttum TV 2.

Eftir sigur Dana á Norðmönnum, 23-29, í milliriðli 2 á EM í handbolta á sunnudaginn fékk TV 2 álit Boysens á leiknum í kvöldfréttum.

Greining hans var stórundarleg enda hringdi TV 2 í vitlaust númer. Sá sem svaraði þóttist vera Boysen og talaði í fimm mínútur um leikinn.

TV 2 hefur staðfest mistökin, harmað þau og segist ætla að gera allt til að þau endurtaki sig ekki.

Boysen tjáði sig svo sjálfur um þessa upplifun á Twitter.

„Þetta viðtal var langt frá því að vera faglegt eins og ég reyni alltaf að vera. Í tilraun sinni til að vera fyndinn - við deilum ekki sama húmor - var þessi aðili með fáránlega greiningu,“ skrifaði Boysen.

„Í morgun [í gær] var mér gert viðvart og þegar ég sá og hlustaði á það var ég bæði leiður og reiður. Það er óútskýranleg tilfinning þegar einhver þykist vera þú í beinni útsendingu“

Boysen er fyrrverandi leikmaður sem hefur getið sér gott orð fyrir afar atorkusama umfjöllun um handbolta á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×