Handbolti

„Aron Pálmars­son var stór­kost­legur frá A til Ö“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson kom með beinum hætti að tíu mörkum gegn Króatíu.
Aron Pálmarsson kom með beinum hætti að tíu mörkum gegn Króatíu. vísir/vilhelm

Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins, lék frábærlega í sigrinum á Króatíu, 30-35, í milliriðli á EM í Þýskalandi í fyrradag. Þetta segir Einar Jónsson, þjálfari Fram.

Aron skoraði sex mörk og gaf fjórar stoðsendingar í leiknum gegn Króatíu. Það var fyrsti sigur Íslendinga á Króötum á stórmóti. Með honum á Ísland enn möguleika á að komast í forkeppni Ólympíuleikanna.

Einar og Hreiðar Levý Guðmundsson gerðu leikinn gegn Króatíu upp í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Sýnar. Þar ræddu þeir meðal annars um frammistöðu Arons.

„Aron Pálmarsson var stórkostlegur frá A til Ö,“ sagði Einar um fyrirliða íslenska landsliðsins.

„Hann stýrði sókninni frá A til Ö. Hann hefði getað verið í hægra horninu; hann var bara að stýra leiknum. Hann opnaði fyrir hina. Þegar það gerðist ekki tók hann sína sénsa. Hann gaf ekki alltaf síðustu sendingu fyrir mark en bjó mikið til og það eina sem næsti maður þurfti að gera var að gefa á fría manninn. Hann var algjör leikbreytir í dag.“

Aron spilaði ekki mikið í leiknum gegn Frakklandi á laugardaginn og var kannski þess vegna ferskur í leiknum gegn Króatíu.

„Mér hefur fundist hann spila mjög vel á þessu móti, fyrir utan Frakkaleikinn þar sem hann spilaði lítið en hvort það var bara meðvitað að hvíla hann,“ sagði Einar.

Aron og félagar hans í íslenska liðinu mæta því austurríska í síðasta leik sínum á EM í dag. Ísland þarf líklega fimm marka sigur til að komast í forkeppni Ólympíuleikanna.

Þáttinn má heyra í spilaranum að ofan. Besta sætið er aðgengilegt á öllum helstu hlaðvarpsveitum, t.a.m. á Spotify hér. Hver einasti leikur Íslands á EM verður gerður upp af sérfræðingum í Besta sætinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×