Handbolti

„Við getum al­veg kallað þetta von­brigði“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson var eðlilega súr eftir að íslenska liðið kastaði frá sér forystunni í dag.
Snorri Steinn Guðjónsson var eðlilega súr eftir að íslenska liðið kastaði frá sér forystunni í dag. Vísir/Vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, var vægast sagt svekktur eftir tveggja marka sigur gegn Austurríki í lokaleik liðsins á EM í handbolta í dag. Hann segir að mótið hafi að vissu leyti verið vonbrigði.

„Ég hef bara ekki nein frábær svör fyrir ykkur, því miður. Við komum bara mjög flatir út í seinni hálfleik og eðlilega er það ekki uppleggið og við erum bara ekki í sama takti og í fyrri hálfleik. Við náum engan veginn að fylgja honum eftir sem er eðlilega bara svekkjandi og það svíður,“ sagði Snorri í leikslok, en fimm marka sigur hefði komið íslenska liðinu í vænlega stöðu um að vinna sér inn sæti í umspili fyrir Ólympíuleikana.

„Enn og aftur er markmaðurinn í hinu liðinu maður leiksins og við erum búnir að fara oft yfir það að það er ekki góður kokteill. Það er alveg fínt að vinna leikinn en tilfinningin er ekki þannig.“

Til að eiga möguleika á sæti í umspili fyrir ÓL þurfa íslensku strákarnir nú að treysta á að Ungverjar taki stig af Frökkum síðar í dag og Snorri segir það ekki góða tilfinningu.

Klippa: Viðtal við Snorra Stein eftir Austurríkisleikinn

„Ég held að þú skynjir það bara hvernig mönnum líður og hafir séð það inni á vellinum í lok leiks. Auðvitað vorum við að spila á móti spútnik liðinu og allt það, en við náðum þessu í þann farveg sem við vildum og það er fáránlega svekkjandi að hafa á svona stuttum tíma í seinni hálfleik bara kastað því forskoti frá okkur,“ sagði Snorri, en íslenska liðið fór með sex marka forskot inn í hálfleikshléið áður en sóknarleikur liðsins hrundi á stórum kafla í síðari hálfleik.

Snorri var nú að klára sitt fyrsta mót sem þjálfari íslenska landsliðsins og þrátt fyrir að vera ekki kominn á þann stað að vera farinn að gera upp mótið segist hann hafa lært ýmislegt.

„Ég er nú ekki kominn svo langt að vera búinn að gera upp mótið, en ég er búinn að læra mikið. Þetta er búið að vera erfitt, gaman og allt í bland. Núna þarf ég bara tíma til að melta þetta og gera þetta upp. Í heildina litið er spilamennskan bar ekki nægilega góð og ég er fúll yfir niðurstöðunni.“

Þá segir hann einnig að mótið í heild sinni hafi verið ákveðin vonbrigði.

„Ef þú spyrð mig núna þá líður mér eins og þetta séu vonbrigði. Auðvitað er stutt á milli í þessu öllu saman, en mér fannst við eiga inni á löngum köflum og mér fannst við ekki ná nægilega oft upp okkar bestu frammistöðu. Þannig að já, við getum alveg kallað þetta vonbrigði,“ sagði Snorri að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×