Ómar Ingi er þannig tilnefndur sem ein af sex bestu hægri skyttum mótsins á miðlum EHF Euro og kemur því til greina í lið mótsins.
Viggó Kristjánsson, sem flestir eru líklega sammála um að hafi spilað betur en Ómar Ingi á EM í ár, er hins vegar ekki tilnefndur.
Ómar Ingi var með 19 mörk í sex leikjum en hann missti af einum leik vegna veikinda. Hann var líka með 11 stoðsendingar en nýtti bara 53 prósent víta sinna og tapaði tólf boltum.
Ómar skoraði líka aðeins þrjú mörk úr ellefu skotum fyrir utan teig en sex marka hans komu úr gegnumbrotum og átta af vítapunktinum.
Hinir sem eru tilnefndir eru Daninn Mathias Gidsel, Frakkinn Dika Mem, Ungverjinn Gábor Ancsin, Portúgalinn Francisco Costa og Hollendingurinn Gerardus Versteijnen.
Viggó skoraði 29 mörk og gaf 13 stoðsendingar í sjö leikjum en hann nýtti 69 prósent skota sinna. Skotnýting Ómars Inga var bara 53 prósent og hann var með tíu færri mörk og tveimur færri stoðsendingar.