Handbolti

EHF heldur á­fram að koma á ó­vart: Bjarki líka til­nefndur í lið mótsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarki Már Elísson skoraði 21 mark fyrir íslenska liðið á mótinu en 38 prósent þeirra í einum leik.
Bjarki Már Elísson skoraði 21 mark fyrir íslenska liðið á mótinu en 38 prósent þeirra í einum leik. Vísir/Vilhelm

Bjarki Már Elísson var einn af sex bestu vinstri hornamönnum Evrópumótsins í handbolta en hann er tilnefndur í úrvalsliðið af EHF, evrópska handboltasambandinu.

Evrópska sambandið eyddi gærdeginum í að tilkynna tilnefningar sínar á miðlum sínum og undir lokin komu fréttirnar af þeim sem þóttu standa sig best í vinstra horni.

Bjarki mun berjast um sæti í úrvalsliði mótsins við Sebastian Frimmel frá Austurríki, Emil Jakobsen frá Danmörku, Rutger ten Velde frá Hollandi. Alexandre Blonz frá Noregi og Hampus Wanne frá Svíþjóð.

Bjarki fékk á sig talsverða gagnrýni á mótinu ekki síst fyrir lokaleikinn á móti Austurríki þar sem hann var mjög slakur. Líkt og það að Ómar Ingi Magnússon sé tilnefndur sem besta hægri skytta mótsins þá kemur þetta val á Bjarka líka furðulega fyrir sjónir.

Bjarki átti vissulega einn mjög góðan leik í sigrinum á Króatíu (8 mörk úr 11 skotum) en hann var aðeins með 2,2 mörk í leik og 52 prósent skotnýtingu í hinum sex leikjunum.

Hjá Bjarka koma því miður saman tvö af stærstu vandamálum íslenska liðsins í mótinu, að nýta dauðafæri og nýta vítaskot. Bjarki nýtti aðeins 50% víta sinna og aðeins 9 af 20 skotum sínum úr vinstra horninu. 8 af 21 marki hans komu úr hraðaupphlaupum.

Á eðlilegu móti fékk Bjarki allt upp í hendurnar til að spila sig inn í myndina sem einn af bestu vinstri hornamönnum mótsins en þessi frammistaða nægði honum til að komast í hóp þeirra bestu. Það kemur vissulega á óvart.

Enginn annar leikmaður íslenska liðsins, aðrir en Ómar Ingi eða Bjarki, var tilnefndur í úrvalsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×