Skoðun

Geð­ræktar­á­takið G-víta­mín á þorra

Grímur Atlason skrifar

Landssamtökin Geðhjálp hafa ýtt úr vör hinu árlega 30 daga geðræktarátaki sem ber heitið G vítamín. Í ár er fjórða árið sem samtökin standa fyrir þessu átaki á þorranum. Boðið er upp á ilmdropa sem notaðir eru daglega ásamt 30 geðræktandi hollráðum – eitt fyrir hvern dag. G vítamín dagsins í dag,föstudagsins 26. janúar, er þannig: Prófaðu eitthvað nýtt. Það er síðan þess sem notar að framkvæma það sem stungið er upp á.

Þorrinn hefur í gegnum tíðina reynst mörgum þungur og langur. Skammdegið getur tekið á og það er allra veðra von. Náttúran hefur líka minnt okkur á upp á síðkastið að við búum á eldfjallaeyju og það sem við töldum sjálfsagt í gær er ekki endilega sjálfsagt í dag. Þess vegna fór Geðhjálp af stað með G vítamín átakið fyrir þremur árum – við getum nefnilega öll gert eitthvað á hverjum degi.

Við þurfum öll að rækta og vernda geðheilsu okkar út lífið. Rétt eins og með líkamlega heilsu, þar sem öllum er ráðlagt að taka vítamín daglega, gerir margt smátt eitt stórt í geðrækt. Markmið G vítamíns er að styrkja geðheilsu landsmanna en um leið að fyrirbyggja mögulega bresti og verja okkur í mótbyr. Með daglegri inntöku G vítamíns myndum við sterkara ónæmi. G vítamínin byggjast á Geðorðunum 10 og 14 Lífsorðum Héðins Unnsteinssonar og Þórdísar Rúnarsdóttur.

Tökum öll þátt – það er ókeypis. Allar nánari upplýsingar má finna á www.gvitamin.is

Höfundur er framkvæmdastjóri Geðhjálpar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×