Fótbolti

Græn­höfða­eyjar og Fíla­beins­ströndin í átta liða úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Garry Mendes Rodrigues og Gilson Benchimol Tavares fagna.
Garry Mendes Rodrigues og Gilson Benchimol Tavares fagna. Ulrik Pedersen/Getty Images

Grænhöfðaeyjar og Fílabeinsströndin eru komin í 8-liða úrslit Afríkukeppninnar í knattspyrnu.

Senegal og Fílabeinsströndin mættust í einum af stórleikjum 16-liða úrslita keppninnar. Eftir að Habib Diallo kom Senegal yfir eftir undirbúning Sadio Mané lögðust ríkjandi meistarar niður og vörðu forskotið.

Sóknarleikur Fílabeinstrandarinnar var hvorki fugl né fiskur og tókst þeim í raun ekki að ógna forystu Senegal fyrr en vítaspyrna var dæmd seint í leiknum. Édouard Mendy, markvörður Senegal, brotlegur og hlaut hann gula spjaldið að launum.

Franck Kessié, núverandi leikmaður Al Ahli í Sádi-Arabíu og fyrrverandi leikmaður stórliða á borð við AC Milan og Barcelona, fór á vítapunktinn og jafnaði metin í 1-1. Það var staðan þegar flautað var til loka venjulegs leiktíma og því þurfti að framlengja.

Ekkert mark var skorað þar og því þurfti að útkljá málin í vítaspyrnukeppni. Þar var Moussa Niakhaté, leikmaður Senegal sá eini sem brenndi af og því gat Kessié tryggt Fílabeinsströndinni sæti í 8-liða úrslitum þegar hann tók fimmtu spyrnu sinna manna. 

Honum brást ekki bogalistin og Fílabeinsströndin er komináfram þar sem leikur gegn Malí eða Búrkína Fasó bíður þeirra.

Grænhöfða-ævintýrið heldur áfram

Ótrúlegt gengi Grænhöfðaeyja heldur áfram en það hjálpaði vissulega að mæta Máritaníu í 16-liða úrslitum.

Leikurinn var nokkuð fjörugur en eina mark leiksins kom ekki fyrr en aðeins tvær mínútur lifðu leiks. Þá fengu Grænhöfðaeyjar vítaspyrnu. 

Ryan Isaac Mendes da Graça fór á vítapunktinn og tryggði Grænhöfðaeyjum 1-0 sigur og sæti í 8-liða úrslitum þar sem Marokkó eða Suður-Afríka verður mótherjnn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×