Littlejohn starfaði hjá Skattinum sem verktaki frá 2017 til 2021. Hann stal skattskýrslum þúsunda auðmanna í Bandaríkjunum. Skattskýrslu Donalds Trump afhenti hann svo til New York Times og ProPublica.
Samkvæmt frétt New York Times játaði Littlejohn sekt sína í lok síðasta árs. Hann var svo í dag dæmdur í fimm ára fangelsi, sem er einn af þyngstu dómum sem veittur hefur verið í málum sem þessum. Saksóknarar héldu því fram að um einstakan glæp væri að ræða. Sambærilegt brot hefði aldrei verið framið í sögu Skattsins.
Hann þarf einnig að greiða sekt og sinna samfélagsþjónustu í þrjú hundruð klukkustundir.
Neitaði að birta skattskýrslur
Donald Trump neitaði að birta skattskýrslur sínar þegar hann bauð sig fram til forseta fyrst árið 2016 og var það í fyrsta sinn í áratugi sem forsetaframbjóðandi gerði það ekki. Skýrslurnar voru svo eftirsóttar að um tíma voru þær geymdar í sérstakri hvelfingu í húsnæði Skattsins.
Eftir að Littlejohn lak skattskýrslunum til fjölmiðla kom meðal annars í ljós að Trump greiddi einungis 750 dali í alríkistekjuskatt árið 2016, sama ár og hann var kjörinn forseti.
Árið 2022 birtu Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings skattskýrslur Trumps sex ár aftur í tímann. Var það gert eftir langvarandi lagadeilur.
Littlejohn starfaði fyrst hjá Skattinum sem verktaki milli 2008 og 2013 en árið 2017 sótti hann aftur um með því markmiði að koma höndum yfir skattskýrslur Trumps, samkvæmt saksóknurum. Þeir segja hann hafa vopnvætt aðgang sinn að opinberum gögnum í pólitískum tilgangi og hafi talið sig hafinn yfir lögin.
Verjandi hans sagði í yfirlýsingu að Littlejohn hafði brotið af sér því hann hafi verið sannfærður um að bandaríska þjóðin hefði rétt á að vita þessar upplýsingar og að deila þeim væri eina leiðin til að koma á breytingum.