Fyrir leik Frederecia og Ringsted í kvöld var Frederecia í öðru sæti dönsku deildarinnar með 30 stig, fimm stigum á eftir toppliði Álaborgar og fjórum stigum á undan Bjerringbro-Silkeborg sem var í þriðja sæti.
Frederecia var með frumkvæðið í upphafi og var yfirleitt einu til tveimur mörkum á undan heimamönnum. Staðan í hálfleik var þó 13-13 en gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn vel og komust mest fjórum mörkum yfir.
Heimamenn komu þó til baka á nýjan leik og þegar innan við mínúta var eftir munaði aðeins einu marki. Nær komust heimamenn þó ekki og Frederecia vann að lokum 24-23 sigur. Einar Þorsteinn Ólafsson var í liði Frederecia í dag en tókst ekki að skora.
Halldór Jóhann Sigfússon og hans menn í Nordsjælland mættu Sönderjyske á útivelli. Liðin voru hlið við hlið í deildinni og gat Nordsjælland jafnað heimamenn að stigum með sigri.
Það gerðist þó ekki. Strax í fyrri hálfleik náði heimaliðið góðri forystu og leiddi 18-12 í hálfleik. Þann mun náðu gestirnir ekki að brúa. Lokatölur 32-24 Sönderjyske í vil sem skilur þar með Nordsjælland fjórum stigum fyrir aftan sig.
Halldór Jóhann hættir með lið Nordsjælland að tímabilinu loknu og tekur við HK í Olís-deildinni.