Innlent

Á­kveðin svæði mun verr farin en önnur

Jón Þór Stefánsson og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Hallgrímur Örn Arngrímsson fór yfir stöðuna í Grindavík í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hallgrímur Örn Arngrímsson fór yfir stöðuna í Grindavík í kvöldfréttum Stöðvar 2. Vísir/Sigurjón

Undanfarnar þrjár vikur hefur verið unnið að því að skoða sprungur og holrými í Grindavík.

„Við erum búin með örugglega helming bæjarins eins og staðan er í dag,“ segir Hallgrímur Örn Arngrímsson, verkefnastjóri jarðkönnunar Verkís, sem ræddi um verkefnið í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Verkið er bæði unnið með göngujarðsjá og drónajarðsjá. Hann segir að með þeim tækjum komi miklu meira í ljós en sjáist á yfirborðinu, eða niður á um það bil tíu metra dýpi. Með þessu hafi smærri og stærri sprungur, sprungusveimar, og jafnvel holrými komið í ljós. Hallgrímur segir þó að enn sem komið er hafi lítið sést af holrými.

„Það eru ákveðin svæði sem er mun verr farin heldur en önnur,“ segir Hallgrímur.

„Verkefnið gengur líka út á það að finna ákveðinn núllpunkt, og komast að því hvernig staðan er í dag. Því við eigum allt eins von á því að svæðið breytist í næsta viðburði,“ segir hann.

„Þannig við erum líka að vinna aðgerðaráætlun um það hvernig við ætlum að skoða svæðið aftur, forgangsraða hvað við skoðum fyrst með áherslu á flóttaleiðir og slíkt, og setja þá ákveðin svæði í eins konar gjörgæslu.“

Aðspurður um hversu mikil og djúp holrýmin séu sem hafi fundist segir Hallgrímur erfitt að segja. 

Dæmi séu um sprungu sem sé tuttugu metra djúp, þar sem slys varð í byrjun janúar þar sem maður féll ofan í sprungu, og þá séu önnur dæmi um tíu metra djúpar sprungur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×