Handbolti

Magdeburg fór illa með Melsungen í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Janus Smári var frábær í dag.
Janus Smári var frábær í dag. Mario Hommes/Getty Images

Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon léku stórt hlutverk í liði Magdeburg er liðið vann afar öruggan 15 marka sigur gegn Melsungen í Íslendingaslag í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, 39-24.

Heimamenn í Magdeburg náðu snemma góðum tökum á leiknum og komust í þriggja marka forystu í stöðunni 5-2. Stuttu síðar skoraði liðið sex mörk í röð og náði þá sjö marka forskoti sem heimamenn héldu stærstan hluta hálfleiksins. Magdeburg leiddi með fimm mörkum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 16-11.

Síðari hálfleikur var svo algjör einstefna og heimamenn náðu fyrst tíu marka forskoti í stöðunni 30-20. Eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda og Magdeburg fagnaði að lokum 15 marka sigri, 39-24.

Janus Daði var markahæsti leikmaður Magdeburg með fimm mörk fyrir liðið, ásamt þeim Tim Hornke, Mic Damgaard Nielsen og Felix Claar, en Janus lagði einnig upp tvö mörk fyrir liðsfélaga sína. Ómar Ingi Magnússon skoraði þjú mörk fyrir liðið og gaf sex stoðsendingar. Í liði Melsungen skoraði Elvar Örn Jónsson fjögur mörk, en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×