Breytingin tók gildi síðasta haust en meðal þess sem fólst í henni var að leikskóli varð gjaldfrjáls í sex klukkustundir, sveigjanleiki við skráningu dvalarstunda var aukinn og afsláttur af leikskólagjöldum var tekjutengdur.
Færri en helmingur í átta tíma eða lengur
Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að þetta fyrsta misseri eftir að breytingarnar tóku gildi hafi meðal dvalartími barna farið úr 8,1 klukkustund í 7,5. Þá er hlutfall barna sem eru í átta tíma dvöl farið úr 85 prósentum í 49 prósent í janúar á þessu ári.
„Foreldrar og forsjáraðilar 46 prósenta barna hafa stytt dvalartíma barna sinna. Enginn leikskóli í Kópavogi hefur þurft að loka deildum það sem af er skólaárinu. Er um mikla breytingu að ræða en skólaárið 2022-2023 voru 212 tilvik þar sem loka þurfti deild,“ segir í tilkynningunni.
Starfsfólk og foreldrar ánægðir
Nýlega var lögð fram könnun fyrir foreldra og forsjáraðila leikskólabarna í Kópavogi og þar kemur fram að meirihluti þeirra telur sveigjanlega dvalartímann jákvæðan fyrir skipulag fjölskyldunnar.
Þá er starfsfólk ánægt með breytingarnar, meirihluti þeirra upplifir betri starfsanda og minna álag.
„Breytingarnar hafa skilað góðum árangri. Ekki hefur þurft að loka leikskólum vegna manneklu, dvalartími barna hefur styst sem dregur úr áreiti og álagi á bæði börn og starfsfólk. Betur gengur að manna leikskóla og flestir leikskólar eru fullmannaðir. Meðal þess sem vekur athygli er að tekjulægri heimili eru almennt ánægð með breytingarnar og eru líklegri til þess að nýta sér sveigjanlegri og styttri dvalartíma,“ er haft eftir Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs í tilkynningunni.