Innlent

Fimm tíma raf­magns­leysi í Borgar­firði

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Eins og sjá má af kortinu nær rafmagnsleysið yfir mjög stóran hluta Borgarfjarðar.
Eins og sjá má af kortinu nær rafmagnsleysið yfir mjög stóran hluta Borgarfjarðar. Rarik

Stór hluti Borgarfjarðar hefur verið rafmagnslaus frá því klukkan fimm síðdegis. Rafmagnsleysið nær yfir Mýrar, Húsafell, Lundarreykjadal og Reykholtsdal. Fjöldi starfsmanna vinnur við að koma rafmagni á að nýju.

„Það er voða lítið hægt að segja, það er bara verið að greina bilunina,“ sagði Elvar Már, sérfræðingur á stjórnstöð Rarik, fyrr í kvöld.

Veistu hvað það er rafmagnslaust hjá mörgum?

„Þetta er náttúrulega nánast allur Borgarfjörðurinn. Borgarnes er ekki rafmagnslaust en það er allt rafmagnslaust út á Húsafelli, á Mýrunum og svo eru Vatnshamraútgangarnir raunverulega Reykholtsdalur og Mýrarlína,“ sagði hann. 

Það sé því ansi stórt svæði og gengið erfiðlega að eiga við bilunina.

Fimm tímar frá fyrstu útleysingu

Fyrsta útleysingin varð að sögn Elvars klukkan 16:48 á Mýrarlínu og því hefur verið rafmagnslaust þar í rúma fimm tíma.

Við að reyna að einangra bilunina kom önnur útleysing í ljós og varð þá rafmagnslaust víðar að sögn Elvars. Um fimmleytið hafi orðið rafmagnslaust í Húsafelli og um sexleytið í Lundarreykjadal og Reykholtsdal 

Eru margir að vinna í þessu?

„Það er allur mannskapur í þessu í Borgarnesi, vinnuflokkurinn þar. Svo eru margir sérfræðingar að vinna í þessu máli hérna á stjórnstöð,“ sagði Elvar.

Vitið þið hvað þetta tekur langan tíma?

„Það er ómögulegt að segja,“ sagði Elvar.

Þegar fréttin er skrifuð um hálf ellefu er búið að koma aftur á rafmagni í Húsafelli en enn er rafmagnslaust á hinum svæðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×