Stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, LV, tilkynnti strax í kjölfar uppkvaðningar héraðsdóms að allar líkur væru á málskoti. Staða LV og þar með fjölda annarra lífeyrissjóða væri mjög óviss í kjölfar dómsins.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp þann 30. nóvember var fallist á kröfur stefnanda sem er sjóðfélagi í sameignardeild LV þar sem krafist var ógildingar á tilteknu ákvæði samþykktabreytinga sem tóku gildi um þarsíðastliðin áramót.
Breytingarnar fólu í sér að áunnin réttindi sjóðfélaga í sameignardeild voru umreiknuð þannig að mánaðarlegar greiðslur lækkuðu mismikið eftir aldri.
Fengu að sneiða fram hjá röðinni í Landsrétti
Á ákvörðun Hæstaréttar um málskotsbeiðni LV segir að sjóðurinn hafi óskað leyfis Hæstaréttar þann 22. desember síðastliðinn, til þess að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms beint til Hæstaréttar og þannig sleppa viðkomu í Landsrétti.
Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar, sagði í samtali við Vísi á dögunum að mikill einkamálahali væri að myndast í Landsrétti og að allt að eitt og hálft ár gæti tekið að fá niðurstöðu í einkamáli þar.
Mikilvægt væri að bregðast við þeim málahala og það hafi að einhverju leyti verið gert með því að breyta lögum um meðferð einkamála á þann veg að hægt sé að skjóta málum beint til Hæstaréttar úr héraði.
Einsýnt að dómur Hæstaréttar yrði fordæmisgefandi
Í ákvörðun Hæstaréttar segir að LV hafi byggt á því að brýnt sé að fá endanlega niðurstöðu í málinu eins skjótt og kostur er, engin þörf sé á að leiða vitni í því og ekki sé ágreiningur uppi um sönnunargildi munnlegs framburðar. Jafnframt telji sjóðurinn ekki þörf á sérfróðum meðdómsmanni við úrlausn málsins á æðra dómstigi.
Þá telji LV einsýnt að dómur Hæstaréttar í málinu verði fordæmisgefandi um svigrúm lífeyrissjóða til að ákveða breytingar á áunnum óvirkum réttindum sjóðsfélaga í samþykktum og einnig um þær ráðstafanir sem lífeyrissjóðir geti gripið til vegna hækkandi lífaldurs.
Að lokum hafi LV byggt á því að þeir hagsmunir og fjármunir sem séu undir í málinu hafi verulega samfélagslega þýðingu. Þannig muni dómur Hæstaréttar ekki aðeins hafa áhrif á aðila málsins eða sjóðsfélaga leyfisbeiðanda heldur allt lífeyriskerfið.
Ekkert sem kemur í veg fyrir málskotið
Niðurstaða Hæstaréttar var sú að að virtum gögnum málsins verði að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá séu ekki fyrir hendi í málinu þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til að áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli laga um meðferð einkamála.
Beiðni LV um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms beint til Hæstaréttar var því samþykkt.