„Ég var bara að keyra í bæinn og svo gerist þetta bara á fimm sekúndum. Rútan sveigir bara allt í einu inn á okkar vegahelming. Þar sem er járn á milli akreina sitthvoru megin við mig,“ segir hún í samtali við fréttastofu.
Sólborg var rétt að koma að álverinu í Straumsvík á fjórða tímanum í dag þegar rútubílstjórinn fór yfir á öfugan vegarhelming. Hún telur líklega hafa munað þremur sekúndum að hún fengi rútuna framan á sig. Þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.
Atvikið má sjá í myndbandinu að neðan úr mælaborðsmyndavél Ísleifs Jónssonar.
„Mér fannst í augnablikinu eins og vinnubíllinn fyrir framan hefði hemlað og hann hefði brugðist þannig við með því að fara yfir á hina akreinina. Hann hafði allan tímann í heiminum til að fara út í kant. Hann keyrði framhjá okkur mjög hratt,“ segir Sólborg greinilega brugðið.

„Ég held ég hafi verið bíll númer tvö sem mætti honum þarna. Það er nýbúið að vera banaslys þarna. Ég er reiðust yfir því að þetta sé ekki tvöfaldað. Ég sat í stjórn hópsins Stopp hingað og ekki lengra! sem hefur verið að berjast fyrir tvöfölduninni. Við fórum á fund með samgönguráðherra 2018-19 og ég veit ekki hver staðan er enn þá. Það eru banaslys sem gerast liggur við á hverju ári og runa af banaslysum bara núna í janúar og febrúar. Ég veit ekki hversu mikið þarf til.“
Mbl vakti fyrst athygli á aksturslagi rútunnar og ræddi við Harald Ingþórsson sem var nokkrum bílum fyrir aftan Sólborgu. Í bílnum með Haraldi var Vilhjálmur Magnússon sem fylgdist með rútunni í baksýnisspeglinum.
„Vilhjálmur fylgdist svo með rútunni í baksýnisspeglinum og sá hana keyra áfram á öfugum vegarhelmingi eða alla vega svo langt sem hann náði að fylgja henni eftir í speglinum. Það kemur fljótlega þarna brekka og blindhæð fyrir aftan okkur en við vitum svo ekkert hvernig bílarnir sem komu á eftir okkur brugðust við,“ sagði Haraldur við Mbl.
Líkt og Sólborgu var honum verulega brugðið.