Handbolti

Dagur tekur við króatíska lands­liðinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dagur Sigurðsson þjálfaði síðast japanska landsliðið en lét af störfum í byrjun mánaðar eftir Asíumótið.
Dagur Sigurðsson þjálfaði síðast japanska landsliðið en lét af störfum í byrjun mánaðar eftir Asíumótið. Getty/Slavko Midzor

Dagur Sigurðsson verður kynntur sem nýr þjálfari handboltalandsliðs Króatíu á morgun. Hann verður þar með fyrsti útlendingurinn til að stýra liðinu og á ærið verkefni fyrir höndum í umspili um sæti á Ólympíuleikunum. 

Dagur hætti þjálfun japanska landsliðsins í byrjun þessa mánaðar. Japanska handknattleikssambandið var vonsvikið með ákvörðun Dags, sem var með samning fram yfir Ólympíuleikana sem hann tryggði Japan inn á í sumar.  

Áður þjálfaði Dagur landslið Þýskalands á árunum 2014-2017 og gerði liðið að Evrópumeistara árið 2016, afar óvænt, og stýrði því til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó. Hann þjálfaði landslið Austurríkis á árunum 2008-2010 eftir að hafa þjálfað austurríska félagsliðið Bregenz, og þjálfaði einnig þýska liðið Füchse Berlín á árunum 2009-2015.

Króatar hafa skipt tvívegis um þjálfara á rétt rúmlega ári, Hrvoje Horvat var rekinn í fyrra eftir slæman árangur á HM, Goran Perkovac tók við af honum en var látinn fara eftir EM 2024.

Króatíski fjölmiðilinn 24 Sata greinir svo frá því að Dagur verði á morgun kynntur sem nýr þjálfari króatíska landsliðsins. Dagur verður fyrsti þjálfari liðsins sem er af erlendu bergi brotinn. 

Dagur á ærið verkefni fyrir höndum með Króatíu en strax um miðjan mars hefst undankeppni Ólympíuleikanna, þar er Króatía í riðli með þýskum lærisveinum Alfreðs Gíslasonar, Austurríki og Alsír. Leikið verður í Þýskalandi og tvö efstu liðin komast á Ólympíuleikana í París í sumar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×