Þetta staðfesti Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingum, í viðtali við Fótbolti.net.
„Þeir voru mjög áhugasamir en það var hætt við á síðustu stundu. Þetta þurfti að gerast hratt en vegna einhverrar reglugerðar í Búlgaríu gekk þetta ekki eftir,“ sagði Kári.
Reglan sem hann nefnir snýr að fjölda erlendra leikmanna sem vekur athygli þar sem hinn 21 árs gamli Djuric er með búlgarskan ríkisborgararétt. Í viðtalinu við Fótbolti.net viðurkenndi Kári að hann skildi ekki 100 prósent hvað væri að annað en að þetta væri „vegabréfsvesen.“
Jafnframt staðfesti Kári að félögin hefðu náð saman en „svo kemur þetta upp og þetta gengur til baka.“
Ludogorets voru nálagt því að fá Daniel Dejan Djuric frá Víkingum.
— Orri Rafn Sigurdarson (@OrriRafn) February 29, 2024
Viðræður voru langt komnar en tilboðið féll ekki í gegn vegna regla um erlenda leikmenn.
Sem er skrýtið - þar sem Djuric er með Búlgarskan ríkisborgararétt. pic.twitter.com/KBzvCt1CSk
Djuric hefur farið mikinn með Víkingum síðan hann gekk í raðir félagsins árið 2022. Á síðustu leiktíð skoraði hann 11 mörk í 31 leik í deild og bikar. Áður en hann gekk í raðir Víkings lék Djuric með FC Midtjylland í Danmörku og Breiðabliki í yngri flokkum.
Þá á hann að baki 3 A-landsleiki og 57 leiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hann hefur skorað 15 mörk.
„Það vita allir hversu góðir Danijel er … Þetta var mjög gott tilboð og okkur fannst það sanngjarnt. Þetta er risastórt félag og hefði verið flott fyrir leikmanninn, en það gekk ekki,“ sagði Kári að endingu í viðtali sínu við Fótbolti.net.
Íslandsmeistarar Víkings hefja titilvörn sína gegn Stjörnunni þann 6. apríl næstkomandi.