Fótbolti

Neymar á­huga­samur um að spila aftur með Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Neymar þegar þeir léku saman hjá Paris Saint-Germain.
Lionel Messi og Neymar þegar þeir léku saman hjá Paris Saint-Germain. Getty/Tim Clayton

Brasilíumaðurinn Neymar er farinn að tala um það að spila aftur með Lionel Messi og sterkur orðrómur er nú um að þeir spili saman á ný hjá bandaríska félaginu Inter Miami í framtíðinni.

Neymar og Messi eru góðir vinir og hafa verið liðsfélagar hjá bæði Barcelona og Paris Saint Germain.

Þeir eru líka stærstu stjörnur erkifjendanna i Suður-Ameríku, Argentínu og Brasilíu. Ekki mætast þeir þó á Copa América í sumar því Neymar verður þá enn að ná sér eftir krossbandsslit.

Neymar var í viðtali hjá ESPN í Argentínu um helgina og var hann þá spurður út í það að Messi sé að fá vini sína til sín til Miami.

„Vonandi getur við spilað aftur saman. Leo er frábær náungi, allir þekkja hann í fótboltanum og ég held að hann sé mjög ánægður. Þegar hann er ánægður þá er ég ánægður,“ sagði Neymar.

Neymar er leikmaður Al Hilal í Sádi Arabíu en fer ekki að spila aftur fyrr en í ágúst. Neymar talaði um að Messi hafi gengið í gegnum helvíti þegar hann var hjá Paris Saint Germain.

Þegar hinn þrítugi Neymar var spurður um það hvort hann ætlaði að enda feril sinn í Brasilíu þá var hann ekki alltof spenntur fyrir því „Ég veit það ekki. Ég efast um það. Ég veit ekki hvort ég spili aftur í Brasilíu,“ sagði Neymar.

„Ég myndi hins vegar elska það að spila í Bandaríkjunum ef ég segi alveg eins og er. Ég væri spenntur að taka alla vega eitt tímabil þar,“ sagði Neymar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×