Musk kom að stofnun OpenAI, fyrirtækisins sem framleiddi ChatGPT gervigreindina svokölluðu. Hann yfirgaf fyrirtækið þó á endanum og stofnaði sitt eigið gervigreindarfyrirtæki og í síðustu viku höfðaði hann mál gegn OpenAI.
Hann heldur því fram að við stofnun fyrirtækisins hafi hann og aðrir forsvarsmenn þess samþykkt að það yrði ekki rekið með hagnað í huga. Þess í stað ætti það að starfa í þágu mannkyns. Hann krefst þess að dómstólar meini fólki og fyrirtækjum, eins og Microsoft, sem hefur fjárfest fyrir milljarða dala í OpenAI, að hagnast á tækninni sem fyrirtækið hefur þróað.
Forsvarsmenn OpenAI segja miður að Musk, sem þeir hafi eitt sinn litið upp til, hafi höfðað mál gegn þeim. Hann hafi upprunalega hvatt þá til að miða hærra, síðan sagt þeim að þeir myndu aldrei ná markmiðum sínum. stofnað samkeppnisaðila og höfðað mál gegn þeim þegar þeir væru að byrja að ná markvissum árangri án hans.
We are dedicated to the OpenAI mission and have pursued it every step of the way.
— OpenAI (@OpenAI) March 6, 2024
We re sharing some facts about our relationship with Elon, and we intend to move to dismiss all of his claims.https://t.co/npC4P5pJE7
Birtu pósta frá Musk
Í yfirlýsingu frá yfirmönnum fyrirtækisins, Sam Atlman þar á meðal, segir að þeir og Musk hafi fljótt áttað sig á því að ekki væri hægt að reka fyrirtækið án hagnaðar, þar sem miklar tekjur þyrfti til að þróa gervigreind og fjármagna þann mikla tæknibúnað sem slík þróun þarf.
Þar segir að upprunalega, þegar fyrirtækið var stofnað árið 2015, hafi Musk heitið OpenAI milljarði dala. Hann hafi þó aldrei lagt fyrirtækinu meira en 45 milljónir. Aðrir hafi varið níutíu milljónum en árið 2017 hafi þeir áttað sig á því að miklu meira fjármagn þurfti til að þróa gervigreind.
Yfirmennirnir segja Musk hafa verið sammála því og lagt til að OpenAI yrði sameinað bílafyrirtækinu Tesla og vildi Musk fá vald yfir stjórn fyrirtækisins og verða forstjóri þess.

Þeir segjast ekki hafa viljað að einhver einn maður hefði fulla stjórn á félaginu og því hafi samkomulag ekki nást. Í kjölfarið hafi Musk slitið sig frá fyrirtækinu og lýst því yfir að hann ætlaði að stofna eigin gervigreindarfyrirtæki. Hann sagðist þá hlynntur því að breytingar yrðu gerðar á OpenAI svo það starfaði með hagnað að markmiði.
Í tölvupósti sem hann sendi forsvarsmönnum fyrirtækisins í desember 2018 skrifaði Musk: „Nokkur hundruð milljónir verða ekki nóg. Þetta þurfa að vera milljarðar á ári strax eða þið getið gleymt þessu.“