Skoðun

Gæti nýr al­þjóða­flug­völlur byggst upp á Mýrum í Borgar­firði?

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Jarðhræringarnar á Suðurnesjum neyða okkur til að hugsa margt upp á nýtt. Eitt af því er staðsetning nýs alþjóðaflugvallar. Nokkrar staðsetningar hafa verið í umræðunni undanfarin ár og ljóst að Hvassahraun er ekki lengur kostur. Hólmsheiði hefur verið nefnd sem og Suðurlandið. Möguleg eldvirkni í Bláfjöllum þrengir nokkuð að þessum kostum.

Mig langar því að kasta einni staðsetningu fram sem ekki hefur mikið í umræðunni en það eru Mýrarnar á Vesturlandi. Það er ljóst að byggðarþróunin á SV horninu verður ekki með þeim hætti sem margir sáu fyrir sér ekki alls fyrir löngu. Vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins eru þrengri og eini raunhæfi möguleikinn er að vaxa til norðurs. Vesturlandið mun því vaxa og styrkjast á næstu áratugum. Akranes og Borgarnes munu að öllum líkindum leika stórt hlutverk í þeirri byggðarþróun. Því er ekki úr vegi að skoða þennan möguleika af fullri alvöru að koma alþjóðaflugvelli fyrir á Mýrunum.

Mýrarnar hafa marga góða kosti fyrir slíka starfsemi og hafa fróðir menn sagt mér að nokkuð auðvelt væri að koma fyrir a.m.k. tveimur flugbrautum. Eflaust þyrfti að rannsaka hvort Ljósufjöll hefðu áhrif á verkefnið.

Það sem mælir með þessari staðsetningu er ekki síst sá möguleiki að koma upp stórskipahöfn í Hvalfirði sem myndi ríma vel við alþjóðaflugvöll þar rétt hjá. Einnig er ljóst að útflutningur á ferskum fiski frá Akranesi, Snæfellsnesi og Vestfjörðum gera staðsetningu flugvallarins mjög áhugaverða.

Ég vil því kasta fram Mýrum í Borgarfirði sem mögulegri staðsetningu flugvallar í framtíðinni og skora á yfirvöld að kanna þennan kost til hlítar. Flugstöð Egils Skallagrímssonar hljómar ágætlega.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×