Viðskipti innlent

Stefna á skráningu í Kaup­höll á næstu mánuðum

Atli Ísleifsson skrifar
Rekstrartekjur Íslandshótela námu 16.784 milljónum króna á á síðasta ári.
Rekstrartekjur Íslandshótela námu 16.784 milljónum króna á á síðasta ári. Sævar Guðmundsson

Íslandshótel stefna á skráningu félagsins í Kauphöll Íslands á næstu mánuðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandshótelum en samstæðuárshlutareikningur félagsins var sendur Kauphöll Íslands fyrr í dag.

Fram kemur að rekstrarhagnaður Íslandshótela fyrir afskriftir (EBITDA) hafi aukist um 51 prósent á milli ára samkvæmt ársreikningi félagsins og verið 4.956 milljónir króna á árinu 2023 samanborið við 3.280 milljónir króna árið 2022. 

„Hagnaður félagsins á árinu nam rétt tæplega 500 millj. kr., samanborið við tæplega 94 millj. kr. tap árið áður. Rekstrartekjur félagsins námu 16.784 millj. kr. á síðasta ári, en voru 13.433 millj. árið 2022.

Góð afkoma Íslandshótela sýnir styrkan grunn félagsins og öfluga stöðu á markaðnum. Fjöldi ferðamanna til landsins jókst á árinu og var um 2,2 milljónir, samanborið við 1,7 milljónir árið áður og gera greiningardeildir ráð fyrir að fjöldi ferðamanna í ár verði um 2,4 milljónir.

Íslandshótel stefna á skráningu félagsins í Kauphöll Íslands á næstu mánuðum og verður félagið þannig betur í stakk búið að grípa frekari tækifæri í ferða- og gistiþjónustu. Mikill áhugi hefur verið á skráningu félagsins, enda vaxtatækifæri fólgin í þessari atvinnugrein. Samhliða hefur félagið ákveðið að starfsfólki verði afhentir hlutir í Íslandshótelum og því þannig þakkað fyrir framlag sitt til uppbyggingar þess og mikilvægi þeirra til framtíðar undirstrikað enn frekar,“ segir í tilkynningunni. 

Íslandshótel rekur átján hótel með tæplega tvö þúsund herbergi á víða land allt. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×