Tekin var ákvörðun um að fresta fundinum klukkan 23 en samningsaðilar hafa setið á fundum í Karphúsinu síðan klukkan tíu í morgun. Þeir hafa þó fundað sitt í hvoru lagi og ríkissáttasemjari farið á milli með tillögur og hugmyndir að samkomulagi.
Leiða má líkur að því að eitthvað hafi miðað í viðræðunum í kvöld miðað við stöðuna eins og hún var rétt fyrir klukkan sjö þegar samningsaðilar fóru yfir sáttatillögur ríkissáttasemjara. Ef deiluaðilum hefði ekki litist á þær tillögur er líklegt að fundi hefði verið slitið mun fyrr og jafnvel ekki boðað til fundar í fyrramálið.
Mikil spenna hefur verið milli samningsaðila síðustu daga og var óttast um tíma í dag að það myndi slitna upp úr viðræðum. Á áttunda tímanum settust nefndirnar þó saman að samningsborðinu eftir að sáttasemjari hafði kynnt þeim eina af mörgum tillögum dagsins.
„Við erum alltaf að þokast ef við erum að tala saman. Ef það er verið að kasta á milli hugmyndum er alltaf einhver von á að við náum lendingu á endanum. Það er bara jákvætt,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR í samtali við fréttastofu rétt fyrir klukkan sjö. Viðtalið var það síðasta sem Ragnar Þór veitti áður en Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari setti samninganefndirnar í fjölmiðlabann.
Samtök atvinnulífsins tilkynntu fyrr í dag að stjórn samtakanna hefði samþykkt einróm að boða til allsherjaratkvæðagreiðslu um verkbann á skrifstofufólk innan VR. Tilefnið er yfirvofandi verkfall starfsfólks á Keflavíkurflugvelli. Rúm vika er í boðaðar aðgerðir af beggja hálfu en þung stemning var í Karphúsinu í dag.
„Þegar kemur að vinnulöggjöfinni þá er hún samhverf hvað varðar vinnustöðvanir. Á nákvæmlega sama hátt og stéttarfélög geta boðað til verkfalla til að þrýsta á um sínar kröfur, geta Samtök atvinnulífsins boðað til verkbanns þess einmitt að þrýsta á um sínar kröfur og í þessu tilfelli þá skiptir mjög miklu máli að við nýtum þetta einstaka tækifæri sem við höfum til að ná efnahagslegum stöðugleika,“ sagði Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, í dag.