Pizzavagninn tók fyrst til starfa 12. júní 2004, en fyrir það höfðu hjónin átt pítsuofn sem þau færðu milli staða í rúmt ár, segir Petrína. Pítsaofninn var þá ýmist á Hestakránni eða í Steinsholti þar sem hjónin seldu pítsur. Svo hafi vagninn komið til sögunnar árið 2004. Petrína segir bróður sinn, Hafliða Breiðfjörð, hafa fengið hugmyndina. Síðan þá hefur verið rúllandi dagskrá allt árið og Pizzavagninn ýmist staðsettur á Flúðum, í Reykholti, Árnesi, Brautarholti, Borg í Grímsnesi og á Laugarvatni. Þau hafi tekið jólafrí og sumarfrí í ágúst.
Pizzavagninn félagslegur
„Það má alveg fylgja með að fyrst og fremst er Pizzavagninn er félagslegur, þetta er bara félagsleg vinna, maður hitti svo mikið af skemmtilegu fólki. Það er eiginlega það sem við eigum eftir að sakna mest,“ segir Petrína. Hún segir að samskipti við sveitunga og aðra vegfarendur sé það sem standi upp úr eftir tuttugu ára rekstur. Hún segist hafa fundið fyrir miklu þakklæti, en hjónin hafa fengið margar kveðjur eftir að þau tilkynntu ákvörðun sína.
Nokkur óvissa ríkir um framtíð vagnsins, en reksturinn er til sölu eins og er. Þá séu sonur og tengdadóttir hjónanna að íhuga að taka við rekstrinum. Það verði bara að koma í ljós hver og hvort einhver taki við rekstrinum.
Nú taka við alls konar verkefni hjá Björgvini og Petrínu, en þau eru bændur í Laxárdal í Skeiða-og Gnúpverjahreppi. Þar eru þau með svínabúskap, kornrækt og kjötvinnslu, en Petrína er nýkjörin í stjórn bændasamtakanna.