Ákvörðun íslenska ríkisins um að gerast aðili að EES samningnum fyrir ríflega þrjátíu árum hafði í för með sér verulegar lagabreytingar hér á landi. Einn af mikilvægustu þáttum samningsins er að hann felur í sér skyldu samningsaðila til að gæta þess að sömu skilyrði um samkeppni gildi á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Þessi skylda leiddi til setningar fyrstu samkeppnislaganna hér á landi sem í raun má kalla byltingu í lagaumgjörð um starfsemi fyrirtækja. Þar var í fyrsta sinn mælt fyrir um hátterni á markaði þar sem samráð fyrirtækja um að takmarka samkeppni var til að mynda bannað líkt og misnotkun á markaðsráðandi stöðu.
Samkeppnisreglur EES samningsins ná þó ekki eingöngu til háttsemi einkafyrirtækja á markaði. Reglum samningsins um ríkisaðstoð er þannig ætlað að koma í veg fyrir að ríkið í krafti valdheimilda sinna skekki samkeppni á markaði. Með ríkisaðstoð er átt við hvers konar forskot sem markaðsaðili kann að njóta vegna ákvarðana ríkisins, stofnanna þess eða fyrirtækja í þess eigu. Meginreglan er sú að ríkisaðstoð er bönnuð en á því eru mikilvægar undantekningar, líkt og þegar um almannaþjónustu er að ræða, þegar ríkið veitir aðstoð vegna náttúruhamfara, efnahagserfiðleika eða til að hrinda í framkvæmd verkefnum sem hafa almenna efnahagslega þýðingu, svo sem stuðningur vegna framkvæmdar áætlunar í loftslagsmálum. Þá verður þó að gæta þess að aðstoðin sé takmörkuð við það sem nauðsynlegt er til að ná fram skilgreindum markmiðum. Þannig stuðla reglurnar um ríkisaðstoð einnig að skynsamlegri meðferð skattfjár.
Það kann að verða nokkur bið eftir því að ríkisfyrirtækið Landsbankinn geti farið að selja landsmönnum tryggingar.
Þegar ríkið sjálft er í krafti eignarhalds á fyrirtæki starfandi á samkeppnismarkaði verður að gæta sérstaklega að því að eignarhaldið leiði ekki til forskots á markaði sem skekki samkeppni. Þannig verður ríkið að sýna fram á að ákvarðanir fyrirtækis standist kröfur ríkisaðstoðarreglnanna, það er að ríkið hagi sér eins og hver annar markaðsaðili. Sé ríkisfyrirtæki að selja eignir þarf þannig að sýna fram á að salan hafi farið fram á markaðsverði til að mynda með gegnsæju útboðsferli. Þegar ríkisfyrirtæki kaupir eignir eða rekstur þarf að sama skapi að sýna fram á að ákvörðun standist prófið um skynsamlega hegðun markaðsaðila. Ef leiða má að því líkur að eignarhald ríkisins feli í sér einhvers konar forskot, til dæmis að því er varðar fjármögnun kaupanna eða arðsemiskröfu, fellur ríkið á prófinu og þá er um ríkisaðstoð í skilningi EES samningsins að ræða. Þess vegna er þátttaka ríkisins á samkeppnismarkaði vandmeðfarin og má jafnvel líkja við svigrúm fíls í postulínsbúð til athafna.
Eins og áður segir felur EES samningurinn í sér að ríkisaðstoð er að meginstefnu til bönnuð. Þess vegna mæla reglurnar einnig fyrir um að hvers konar aðstoð sem áformuð er ber að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem hefur valdheimildir til að fylgja eftir því að skilyrðum ríkisaðstoðarreglnanna sé fullnægt. Samkeppnisaðilar sem telja háttsemi ríkisins eða ríkisfyrirtækja brjóta í bága við ríkisaðstoðarreglurnar geta einnig beint kvörtunum til ESA sem hefur þá skyldu til þess að ganga úr skugga um að ekki sé um ólögmæta ríkisaðstoð að ræða. Á meðan mál er til rannsóknar er óheimilt að hrinda meintri ríkisaðstoð í framkvæmd.
Það kann því að verða nokkur bið eftir því að ríkisfyrirtækið Landsbankinn geti farið að selja landsmönnum tryggingar.
Höfundur er lögmaður og einn eigenda hjá ADVEL lögmönnum.