Lífið

Vekur at­hygli vegna fátíðra baðferða

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hjónin Jonathan Ross og Jane Goldman hafa verið gift frá árinu 1988 þegar hún var átján ára og hann 28 ára. Þau baða sig sjaldan.
Hjónin Jonathan Ross og Jane Goldman hafa verið gift frá árinu 1988 þegar hún var átján ára og hann 28 ára. Þau baða sig sjaldan. Getty

Enski þáttastjórnandinn Jonathan Ross vakti athygli í vikunni þegar hann sagði að það liði oft meira en vika milli baðferða hjá honum og eiginkonu hans. Þegar hann fari í frí baði hann sig enn sjaldnar.

Hinn 63 ára Ross sagði við Josh Widdicombe í hlaðvarpinu „Parenting Hell“ að ef hann reyni ekki á sig og svitni ekki þá sleppi hann því að fara í sturtu. Fyrir vikið líði oft margir dagar milli baðferða. 

Það sama sagði hann eiga við um eiginkonu sína, 53 ára handritshöfundinn Jane Goldman. Þau hjónin hafa verið gift frá árinu 1988 og eiga þrjú börn saman.

„Mér býður við því að þurfa að fara í sturtu. Stundum líður vika án þess að ég fari í sturtu, að minnsta kosti. Jane gerir það líka stundum. Við erum eins og tveir hamstar liggjandi í eigin stráum í rúminu,“ sagði hann í viðtalinu.

Baðar sig sjaldnar í fríum en fer stundum í sturtu fyrir bað

Ross viðurkenndi líka að þegar hann færi í frí liði stundum enn lengri tími án þess að hann þrifi sig. Hann tók sem dæmi þegar þau hjónin fóru í frí til Flórída í steikjandi hita og hann lét sér nægja að dýfa sér í sundlaugina á staðnum.

En það er ekki alltaf sem Ross baðar sig of lítið af því hann sagði í viðtalinu að þegar hann færi í bað þá færi hann oft fyrst í sturtu. „Stundum fer ég í sturtu áður en ég fer í bað. Það er japanska leiðin... af því þú liggur í því sem losnar af líkamanum þínum. Af hverju ættirðu að baða þig fyrst og liggja svo í ruslinu?“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×