Veður

Vegir lokaðir víða um landið

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Vetrarfærð er víða á landinu.
Vetrarfærð er víða á landinu. Vísir/Vilhelm

Vegir eru lokaðir víða á landinu og færð ekki með besta móti sem er ekki gott fyrir alla þá ferðalanga sem þurfa að komast heim eftir páskahelgina.

Vestur á fjörðum er lokað um Þröskulda og hefst mokstur ekki fyrr en seinna í dag. Steingrímsfjarðarheiði er lokuð en mokstur er hafinn. Á Norðurlandi er lokað um Öxnadalsheiði, Þverárfjall og Siglufjarðarveg.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að margir vegir séu ófærir eða lokaðir.

„Vegir verða skoðaðir með tilliti til opnunar með morgninum og deginum. Við bendum á að víða um land eru brotholur í vegum og eru vegfarendur beðnir að aka með gát.“

Frekari upplýsingar um færð og mögulega opnun má finna á vef Vegagerðarinnar, umferðin.is.

Á Austurlandi er þungfært, þæfingureða snjóþekja víða á vegum og ófært á Vatnsskarði eystra, um Öxi og Breiðdalsheiði. Þá er einnig lokað um Fjarðarheiði.

Á Norðausturlandi er einnig víða lokað. Upplýsinga um opnun Vopnafjarðarheiðar og um Mývatns- og Möðrudalsöræfi er ekki að vænta fyrr en í hádeginu segir Vegagerðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×